Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, gagnrýndi vesturveldin harðlega í dag fyrir að styðja ekki aðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum í norðurhluta Sýrlands. Erdogan sakaði vesturveldin um að „standa með hryðjuverkamönnum“.
„Getið þið ímyndað ykkur að öll vesturveldin stóðu með hryðjuverkamönnum og réðust öll á okkur, þar á meðal NATO-ríki og ríki Evrópusambandsins,“ sagði Erdogan í Istanbúl í dag.
Hersveitir Tyrkja hófu árásir á landamærum Tyrklands og Sýrlands 9. október eftir að Bandaríkjamenn tilkynntu að þeir hörfuðu frá svæðinu.
Tilkynnt var um vopnahlé seint á fimmtudag og gáfu tyrknesk stjórnvöld Kúrdum frest til þriðjudags til að yfirgefa „örugga svæðið“ sem tyrkneskar hersveitir segjast vilja skapa meðfram suðurhluta landamæranna fyrir þriðjudag.