Kanadabúar ganga að kjörborðinu

Kjörstaðir hafa verið opnaðir í Labrador og á Nýfundnalandi í austurhluta Kanada þar sem landsmenn kjósa til þings. Landið nær yfir sex tímabelti og því mun kjörfundur standa samtals yfir í 14 klukkustundir. Búist er við fyrstu úrslitum fyrir miðnætti í kvöld, að íslenskum tíma. 

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, á kosningafundi.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, á kosningafundi. AFP

Á kjörskrá eru 27,4 milljónir, á kanadíska þinginu sitja 338 þingmenn og gangi spár verða þetta tvísýnustu úrslitin í stjórnmálasögu Kanada. Kosningabaráttan hefur verið óvægin á köflum og lygabrigsl og ýmsar aðrar ásakanir gengið á báða bóga. Öryggisgæsla var aukin á kosningafundum og þurfti Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada að klæðast skotheldu vesti á kosningafundi í Toronto í síðustu viku.

Staða Trudeaus og flokks hans, Frjálslynda flokksins, þykir nokkuð tæp þegar Kanadabúar ganga að kjörborðinu í dag. Flokknum er spáð 31-32% fylgi og verði það úrslitin mun Trudeau annaðhvort freista þess að mynda minnihlutastjórn eða víkja úr forsætisráðherrastóli. 

Andrew Scheer, formaður kanadíska Íhaldsflokksins á kosningafundi í síðustu viku.
Andrew Scheer, formaður kanadíska Íhaldsflokksins á kosningafundi í síðustu viku. AFP

Íhaldsflokknum undir forystu Andrew Scheer er spáð álíka miklu fylgi og gangi spár eftir verða þetta jöfnustu kosningaúrslit í sögu Kanada og í fyrsta skiptið frá árinu 1867 sem hvorugur flokkurinn nær að mynda hreina meirihlutastjórn.

Dalandi fylgi

Fylgi Trudeaus hefur dalað jafnt og þétt undanfarin misseri, á kosningafundi sem hann hélt í gær reyndi hann allt hvað af tók að klóra í bakkann og talaði m.a. um árangur stjórnar sinnar; um sterkan efnahag, lítið atvinnuleysi, lögleiðingu kannabisefna og móttöku 60.000 flóttamanna frá Sýrlandi. Þar talaði hann líka um fyrirætlanir Íhaldsflokksins um að endurskoða ýmis lög og reglugerðir sem eiga að stuðla að umhverfisvernd. 

Í síðustu viku hvatti Barack Obama, fyrr­ver­andi Banda­ríkja­for­seti, kanadíska kjós­end­ur til að kjósa Trudeau og sagði forsetinn fyrrverandi Trudeau hafa náð miklum árangri sem leiðtogi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert