Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, tilkynnti forseta landsins, Reuven Rivlin, í dag að honum hefði ekki tekist að mynda nýja ríkisstjórn í kjölfar þingkosninganna í september að því er segir í frétt AFP-fréttaveitunnar.
Fram kemur í fréttinni að þetta þýði að helsti andstæðingur hans, Benny Gantz, fái tækifæri til þess að mynda nýja stjórn. Viðræður á milli Netanyahus og Gantz skiluðu ekki árangri en Netanyahu fer fyrir Likud-bandalaginu á meðan Gantz fer fyrir Bláhvíta bandalaginu sem er bandalag miðjuflokka.
Gantz fær líkt og Netanyahu 28 daga til þess að reyna að mynda stjórn.