Kúrdar verði fjarlægðir frá landamærunum

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, …
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, takast í hendur á blaðamannafundi í dag hvar þeir greindu frá samkomulaginu. AFP

Leiðtogar Rússlands og Tyrklands komust að samkomulagi í dag sem miðar að því að tryggja að hersveitir Kúrda hverfi á brott frá landamærum Sýrlands að Tyrklandi. Þá er stefnt að því að Rússar og Tyrkir sinni í samstarfi eftirliti á svæðinu.

Fram kemur í frétt AFP að Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hafi fagnað samkomulaginu sem sögulegu. Viðræður Erdogans og Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, um samkomulagið fóru fram í borginni Sochi í suðurhluta Rússlands.

Rússar hafa verið helstu stuðningsmenn stjórnvalda í Sýrlandi í borgarastyrjöldinni sem geisað hefur í landinu undanfarin ár. Kúrdar óskuðu á dögunum eftir aðstoð frá Sýrlandsher til þess að verjast innrás Tyrkja í norðurhluta Sýrlands.

AFP

Samkomulagið felur í sér að Tyrkir munu fara áfram með stjórn þess svæðis í Sýrlandi sem þeir hafa tekið í kjölfar innrásarinnar en það nær 32 kílómetra inn í landið.

Klukkan 9:00 á morgun að íslenskum tíma munu rússneskir herlögreglumenn og sýrlenskir landamæraverðir hefjast handa við að afvopna Kúrda og flytja þá 30 kílómetra frá landamærum landanna. Ljúka á því verkefni á 150 klukkutímum.

Þegar því er lokið munu rússneskir og tyrkneskir hermenn hefja sameinilegt eftirlit á svæðinu sem er undir stjórn Tyrkja. Samkomulagið þykir hafa styrkt stöðu bæði Tyrkja og Rússa í Sýrlandi á sama tíma og bandarískir hermenn hafa verið kallaðir á brott frá norðurhluta landsins. Tyrkir réðust inn í Sýrland í kjölfar þeirrar ákvörðunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert