Rússneski herinn kemur sér fyrir á landamærum Sýrlands

Rússneskir hermenn eru komnir inn í sýrlenska bæinn Kobane, öðru …
Rússneskir hermenn eru komnir inn í sýrlenska bæinn Kobane, öðru nafni Ain al-Arab, á landamærum Sýrlands og Tyrklands. AFP

Rússneskar hersveitir eru lagðar af stað til Sýrlands og byrjaðar að koma sér fyrir á öryggisvæði við landamæri Tyrklands og Sýrlands í kjölfar samkomulags leiðtoga Rússlands og Tyrklands sem miðar að því að tryggja að hersveitir Kúrda hverfi á brott frá landamærunum.

Hersveitir Rússa voru sendar af stað eftir að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Recep Tayyip Er­dog­an, forseti Tyrklands, náðu samkomulagi um sameiginlegt eftirlit á svökölluðu öryggissvæði á landamærum Tyrklands og Sýrlands. Hersveitirnar hafa þegar komið sér fyrir í bæjunum Kobane og Manbij segir í frétt BBC um málið.

Samkvæmt samkomulaginu munu Tyrkir fara áfram með stjórn þess svæðis í Sýrlandi sem þeir hafa tekið í kjölfar innrásarinnar sem hófst fyrir tveimur vikum og var beint gegn Kúrdum sem Tyrkir líta á sem hryðjuverkamenn.

Svæðið nær 32 kílómetra inn í Sýrland og tyrknesk stjórnvöld ætla að koma um tveimur milljónum flóttamanna fyrir á svæðinu.

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti ákvað í byrj­un októ­ber að banda­rísk­ir her­menn yrðu flutt­ir frá norður­hluta Sýr­lands, sem gerði Tyrkj­um kleift að ráðast gegn Kúr­d­um á svæðinu. Fyrr í dag lýsti hann yfir árangrinum sem hefði náðst á landmærunum. „Kúrdar eru öruggir og hafa unnið náið með okkur,“ tísti hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert