Rússneskar hersveitir eru lagðar af stað til Sýrlands og byrjaðar að koma sér fyrir á öryggisvæði við landamæri Tyrklands og Sýrlands í kjölfar samkomulags leiðtoga Rússlands og Tyrklands sem miðar að því að tryggja að hersveitir Kúrda hverfi á brott frá landamærunum.
Hersveitir Rússa voru sendar af stað eftir að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, náðu samkomulagi um sameiginlegt eftirlit á svökölluðu öryggissvæði á landamærum Tyrklands og Sýrlands. Hersveitirnar hafa þegar komið sér fyrir í bæjunum Kobane og Manbij segir í frétt BBC um málið.
Samkvæmt samkomulaginu munu Tyrkir fara áfram með stjórn þess svæðis í Sýrlandi sem þeir hafa tekið í kjölfar innrásarinnar sem hófst fyrir tveimur vikum og var beint gegn Kúrdum sem Tyrkir líta á sem hryðjuverkamenn.
Svæðið nær 32 kílómetra inn í Sýrland og tyrknesk stjórnvöld ætla að koma um tveimur milljónum flóttamanna fyrir á svæðinu.
Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað í byrjun október að bandarískir hermenn yrðu fluttir frá norðurhluta Sýrlands, sem gerði Tyrkjum kleift að ráðast gegn Kúrdum á svæðinu. Fyrr í dag lýsti hann yfir árangrinum sem hefði náðst á landmærunum. „Kúrdar eru öruggir og hafa unnið náið með okkur,“ tísti hann.
Big success on the Turkey/Syria Border. Safe Zone created! Ceasefire has held and combat missions have ended. Kurds are safe and have worked very nicely with us. Captured ISIS prisoners secured. I will be making a statement at 11:00 A.M. from the White House. Thank you!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) October 23, 2019