Bandaríkjamaðurinn Paul Whelan, sem er í varðhaldi í Rússlandi grunaður um njósnir, var í morgun úrskurðaður í tveggja mánaða áframhaldandi gæsluvarðhald. Whelan var handtekinn skömmu fyrir áramót.
Whelan var handtekinn þar sem hann sótti brúðkaup hjá bandarískum vini sínum og rússneskri eiginkonu hans í Moskvu 28. desember á síðasta ári.
Samkvæmt frétt AFP er hann sakaður um að geyma ríkisleyndarmál. Hann hafi verið handtekinn með USB-drif í fórum sínum og á því hafi fundist nafnalisti. Verði Whelan fundinn sekur bíður hans allt að 20 ára fangelsisvist.
Whelan sagði við fréttamann AFP í Mosvku að hann teldi sig vera notaðan sem skiptimynt til að fá rússneska fanga sem eru í haldi vestanhafs heim. Hann sagði auk þess að málsmeðferðin gegn sér væri ekki eðlileg.