„Ég er að deyja, ég get ekki andað“

Fjölskylda Pham Thi Tra My, sem er 26 ára og …
Fjölskylda Pham Thi Tra My, sem er 26 ára og frá Víetnam, óttast að hún hafi verið meðal þeirra sem fundust látin í tengi­vagni flutn­inga­bíls í bæn­um Thurrock í Essex-héraði í suðaust­ur­hluta Eng­lands aðfaranótt miðviku­dags­. Skjáskot/BBC

Að minnsta kosti sex af þeim 39 sem fundust látin í tengi­vagni flutn­inga­bíls í bæn­um Thurrock í Essex-héraði í suðaust­ur­hluta Eng­lands aðfaranótt miðviku­dags­ins voru líklega frá Víetnam. Áður hafði verið greint frá því að konurnar átta og karlarnir 31 sem fundust í tengivagninum væru kínverskir ríkisborgarar. 

Sex víetnamskar fjölskyldur óttast að ástvinir þeirra séu meðal hinna látnu. „Ég er að deyja, ég get ekki andað. Ég elska ykkur svo heitt mamma og pabbi. Mér þykir þetta leitt,“ stóð í textaskilaboðum frá Pham Thi Tra My, 26 ára, sem hún sendi á þriðjudag. Fjölskylda hennar hefur ekki heyrt frá henni síðan. 

Bróðir hennar segir í samtali við BBC að fjölskyldan hafi greitt smyglurum 30 þúsund pund, eða sem nemur rúmum 4,8 milljónum króna, fyrir að koma Tra My til Bretlands og að þau hafi síðast vitað af henni í Belgíu. Smyglararnir eiga að hafa endurgreitt hluta fjárins til aðstandenda þeirra sem létust í tengivagninum, að sögn bróður Tra My. 

Tengi­vagn­inn kom sjó­leiðina frá Zeebrug­ge í Belg­íu til stór­skipa­hafn­ar­inn­ar í …
Tengi­vagn­inn kom sjó­leiðina frá Zeebrug­ge í Belg­íu til stór­skipa­hafn­ar­inn­ar í Pur­f­leet við mynni Thames-ár­inn­ar skömmu eft­ir miðnætti aðfaranótt miðviku­dags, en sigl­ing­in tek­ur 9 - 12 klukku­stund­ir. AFP

Fjölskyldan hefur óskað eftir aðstoð bresku lögreglunnar þar sem þau vilja koma líki Tra My heim til Víetnam, reynist það rétt að hún hafi verið um borð.  

Fjórir hafa verið handteknir vegna málsins. 48 ára karlmaður var handtekinn síðdegis á Stansted flugvelli. Fyrr í dag handtók breska lögreglan karl og konu. Mo Robin­son 25 ára vöru­flutn­inga­bíl­stjóri frá Norður-Írlandi, var sá fyrsti sem var handtekinn vegna málsins. Fjórmenningarnir eru grunuð um mann­dráp og að hafa lagt á ráðin um man­sal.

Krufning á hinum látnu hófst í dag, en dánar­or­sök þeirra ligg­ur ekki fyr­ir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert