Fleiri handteknir vegna fólksins í tengivagninum

Tengivagninum, sem fólkið fannst í, ekið á brott.
Tengivagninum, sem fólkið fannst í, ekið á brott. AFP

Breska lögreglan hefur handtekið tvennt til viðbótar vegna gruns um aðild að láti 39 manna og kvenna sem fundust í tengivagni flutningabíls í bænum Thurrock í Essex-héraði í suðaust­ur­hluta Eng­lands aðfaranótt miðvikudagsins. 

Áður hafði einn verið handtekinn, Mo Robinson 25 ára vöruflutningabílstjóri frá Norður-Írlandi. Fólkið sem handtekið var í dag eru karl og kona, bæði 38 ára frá Cheshire í norðvesturhluta Englands.

Fólkið er handtekið vegna gruns um manndráp og að hafa lagt á ráðin um mansal.

Í bílnum voru átta konur og 31 karl og eru öll talin vera kínverskir ríkisborgarar. Hefjast á handa við að kryfja hin látnu í dag, en dánarorsök þeirra liggur ekki fyrir.

Hitastigið getur farið niður í -25°C

Tengi­vagn­inn kom sjó­leiðina frá Zeebrug­ge í Belg­íu til stór­skipa­hafn­ar­inn­ar í Pur­f­leet við mynni Thames-ár­inn­ar skömmu eft­ir miðnætti aðfaranótt miðviku­dags, en siglingin tekur 9 - 12 klukkustundir.  Ekið var með tengivagninn á iðnaðarsvæði og þar fann lögregla hann eftir að henni hafði borist símtal um að ekki væri allt með felldu. Óvíst er hvar og hvenær fólkið fór í tengivagninn, sem er kælivagn þar sem hitastigið getur verið allt niður í -25°C. 

Tengivagninum, sem fólkið fannst í, ekið á brott.
Tengivagninum, sem fólkið fannst í, ekið á brott. AFP

Íbúar í grennd við Pur­f­leet-höfnina segja í samtali við fréttamann AFP-fréttastofunnar að ólöglegir innflytjendur séu algeng sjón á svæðinu. „Þetta er eins og segull fyrir ólöglega innflytjendur,“ segir Janet Lilley við AFP. „Fólk streymir hér úr skipunum, inn í flutningabílana og er ekið á brott.“

Í sama streng tekur annar íbúi, Lee Tubby. „Hingað kemur fólk beint frá bryggjunni og bankar á dyrnar og biður um skó, biður um vatn að drekka,“ segir hann. 

Þetta er stærsta morðrannsókn í Englandi frá hryðjuverkunum í London í júlí 2005 þegar sprengjur voru sprengdar í neðanjarðarlestum og strætisvagni í borginni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert