Röð mistaka leiddi til að Boeing 737 Max-farþegaþota Lion Air fórst í Indónesíu í október á síðasta ári með þeim afleiðingum að 189 létu lífið. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu.
Indónesískir rannsakendur segja að mistök hafi verið gerð hjá flugvélaframleiðandanum Boeing, flugfélaginu Lion Air og hjá flugmönnunum sem varð til þess að vélin hrapaði.
Þá segir í skýrslunni, sem telur yfir 350 blaðsíður og var birt í dag, að það hefði átt að kyrrsetja vélina eftir að galli kom í ljós og að einn af flugmönnunum þekkti ekki allar verklagsreglur.
Ennfremur kom fram að það vantaði 31 blaðsíðu úr viðhaldshandbók vélarinnar. Þetta kemur fram á vef BBC.
Í skýrslunni er einnig talað um að mikilvægur nemi, sem hafði verið keyptur af verkstæði í Flórída í Bandaríkjunum, hefði ekki verið prófaður með viðunandi hætti.
Þetta hafi hins vegar aðeins verið einn hlekkur í keðju atburða sem leiddi til þess að farþegaþotan fórst.
„Það sem við vitum er að það voru níu atriði sem leiddu til slyssins,“ sagði Nurcahyo Utomo, hjá rannsóknarnefnd flugslysa í Indónesíu, á blaðamannafundi í dag. „Ef eitt af þessum níu atriðum hefði verið í lagi þá er mögulegt að það hefði mátt forða slysi.“
Rannsakendurnir nefna einnig að það hafi verið vandamál í svonefndu MCAS-kerfi vélarinnar sem á að koma í veg fyrir að hún ofrísi. Menn hafi ekki áttað sig á því hvernig kerfið gæti hagað sér og flugmennirnir þar af leiðandi ekki verið með réttar upplýsingar um það.
Farþegaþota Lion Air hrapaði skömmu eftir flugtak í 29. október í fyrra. 189 manns voru í heildina um borð í vélinni, sem var af Boeing 737 Max-gerð. Hún tók á loft frá Jakarta, höfuðborg Indónesíu, en hvarf af ratsjám 13 mínútum síðar. Höfðu flugmenn vélarinnar þá óskað eftir leyfi til að snúa aftur til flugvallarins í Jakarta. Sjónarvottar lýstu því hvernig þeir hefðu fylgst með vélinni missa flugið og steypast í vatnið.