Októberfest mengaði 10x meira en Boston

Hátíðargestir drekka að jafnaði ríflega sjö milljónir lítra af bjór.
Hátíðargestir drekka að jafnaði ríflega sjö milljónir lítra af bjór. AFP

Hin árlega bjórhátíð Októberfest sem haldin er í München framleiddi í fyrra tíu sinnum meira af metani en myndaðist í borginni Boston á jafnlöngum tíma það er að segja á þeim 16 dögum sem hátíðin var haldin. Nýjar rannsóknir umhverfisfræðinga hafa leitt þetta í ljós. 

Vísindamenn í tækniháskóla München gengu og hjóluðu í kringum jaðar hátíðarinnar með hreyfanlega skynjara á lofti. Mælingar vísindamannanna sýndu að viðburðurinn hafi framleitt tæplega 1.500 kíló af metani. Það er tíu sinnum meira en magn metans sem kom frá Boston í Bandaríkjunum á sama tíma. Guardian greinir frá þessu. 

10% má rekja til vindgangs og ropa

Vísindamennirnir telja að rekja megi stærstan hluta losunarinnar til leka og ófullkomins bruna í eldunar- og hitunartækjum en 10% af metaninu má rekja til vindgangs og ropa frá hátíðargestum. 

Metan er næstalgengasta gróðurhúsalofttegundin sem verður til vegna athafna mannkyns, einungis koldíoxíð er algengara. Þó metan lifi skemur en koldíoxíð þá hefur það meiri áhrif á hlýnun loftslags. 

Magn metangass í loftslaginu hefur aukist á undanförnum árum en vísindamenn hafa til þessa ekki getað útskýrt hvers vegna það hefur gerst. 

Rúmlega sex milljónir manns sækja Októberfest í München á hverju ári. Drekka hátíðargestir ríflega sjö milljónir lítra af bjór, 100.000 lítra af víni og leggja sér til munns hálfa milljón kjúklinga og 250.000 pylsur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert