Líki Baghdadi hent í sjóinn

Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Ríkis Íslams, hefur látið lítið fyrir …
Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Ríkis Íslams, hefur látið lítið fyrir sér fara undanfarin ár en birtist þó í áróðursmyndbandi í vor. AFP

Lík hershöfðingja ríkis íslams, Abu Bakr al-Baghdadi, var „grafið“ á sjó eftir að hann sprengdi sig í loft upp þegar Bandaríkjamenn gerðu árás á fylgsni hans í Sýrlandi á laugardagskvöld. Þetta hefur fréttastofa AFP eftir sínum heimildum frá Pentagon, höfuðstöðvum bandaríska varnarmálaráðuneytisins.

Í kvöld greindi BBC frá því að tveir menn hafi verið handteknir í fyrrnefndri árás Bandaríkjamanna á fylgsni Baghdadis. Þeir eru nú haldi lögreglu. 

Engar upplýsingar um það hvenær eða hvar líkinu var fargað liggja fyrir en líki  Osama Bin Ladens, fyrrum leiðtoga hryðjuverkasamtakanna Al-Qaeda, var fargað á sambærilegan hátt árið 2011. Hann hafði þá verið drepinn í árás bandarískra sérsveita í Pakistan.

„Jarðneskum leifum Baghdadi hefur verið fargað. Það var gert með viðeigandi hætti,“ sagði hershöfðinginn Mark Milley í samtali við AFP. 

Milley sagði að greftrunin hafi verið eftir venjulegum stöðlum bandaríska hersins og í samræmi við lög um vopnuð átök. 

Milley sagði jafnframt í dag að ekki væri áætlað að birta myndir af líkamsleifum Baghdadis. Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði áður lagt til að myndskeið af árás bandarískra hermanna yrði birt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert