Greidd verða atkvæði um rannsókn á embættisbrotum Donalds Trump Bandaríkjaforseta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings á fimmtudag.
Hingað til hafa demókratar haldið því fram að ekki þyrfti formlega atkvæðagreiðslu til þess að halda áfram rannsókninni, ekkert kveði á um það í bandarískri stjórnarskrá, en nú hefur Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata og forseti fulltrúadeildar þingsins, sagt að atkvæðagreiðsla fari fram til þess að afnema allan vafa.
Í bréfi til þingsins segir hún að kröfur Bandaríkjaforseta um atkvæðagreiðslu séu ómarktækar, en að atkvæðagreiðsla fari engu að síður fram til þess að tryggja að Hvíta húsið gefi vitnisburð og afhendi gögn við rannsókn málsins. „Enginn er hærra settur lögunum,“ skrifar Pelosi.