Kleif 14 hæstu fjöll heims á sjö mánuðum

Nepalski fjallagarpurinn og fyrrverandi hermaður breska sjóhersins Nirmal Purja komst í nótt á topp fjallsins Shishapangma í Kína og hefur þannig klifið 14 hæstu fjöll heims á sjö mánuðum og sett nýtt heimsmet. Purja, sem er 36 ára gamall, bætti þar með fyrra heimsmet um meira en sjö ár. Eins og fram kemur á vef BBC er ekki öruggt hver átti metið á undan Purja en ljóst að það tók síðasta heimsmethafa tæplega átta ár að klára verkið.

Purja gekk í breska herinn árið 2003 og sjóherinn 2009 en nepalskir hermenn hafa gengt herþjónustu í breska hernum í yfir 200 ár. Árið 2012 gekk hann upp í grunnbúðir Everest og ætlaði að láta þar við sitja en ákvað þegar þangað var komið að halda alla leið á toppinn. Hann hefur áður sett heimsmet í fjallaklifri; enginn hefur farið hraðar á milli tveggja fjallstoppa sem eru yfir 8000 metrum.

14 fjöll í heiminum standa meira en 8000 metrum yfir sjávarmáli og kleif Purja þau því öll. Vegferð hans hófst með því að ná toppi Annapurna í Nepal hinn 23. apríl og lauk eins og áður sagði í nótt, 29. október. Purja hefði raunar getað klárað verkefnið enn fyrr. Meira en mánuður er síðan hann kleif 13. fjallið en þurfti að bíða eftir leyfi kínverskra stjórnvalda til að klífa Shishapangma. Þá sagði hann við BBC í ágúst að hann hefði getað náð toppum Everest, Lhotse og Makalu á þremur dögum í stað fimm hefði hann ekki stoppað tvö kvöld og „fengið sér drykk.“

Nirmal Purja er langfljótastur í sögunni til að klífa 14 …
Nirmal Purja er langfljótastur í sögunni til að klífa 14 hæstu fjöll heims, gerði það á 7 mánuðum og bætti heimsmetið um rúm 7 ár. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert