Næstráðandi Abu Bakr al-Baghdadi heitins, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við Ríki íslams, hefur fallið fyrir hendi bandarískra hermanna.
Þetta segir Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, í Twitter-færslu sinni. Þar greinir hann hvorki frá nafni viðkomandi né hvernig dauða hans bar að en segist vilja staðfesta að næstráðandi Baghdadi hafi fallið fyrir hendi bandarískra hermanna.
„Líklega hefði hann tekið að sér æðstu stöðu. Núna er hann einnig látinn,“ skrifar forsetinn í færslu sinni.
Just confirmed that Abu Bakr al-Baghdadi’s number one replacement has been terminated by American troops. Most likely would have taken the top spot - Now he is also Dead!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) October 29, 2019
Trump staðfesti á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í fyrradag að al-Baghdadi hefði sprengt sig í loft upp þegar Bandaríkjamenn gerðu árás á fylgsni hans í Sýrlandi á laugardagskvöldið. „Abu Bakr al-Baghdadi er látinn,“ sagði Trump.
Forsetinn sagði að Baghdadi hefði verið króaður af, grátandi og öskrandi, og þar hefði hann sprengt sig og þrjú ung börn sín í loft upp. Fjölmiðlar vestanhafs greindu frá því að Baghdadi hafi alltaf haft sprengjuvesti við höndina af ótta við að vera handsamaður.