Víetnömsku fjölskyldurnar stórskuldugar

Nguyen Dinh Gia, faðir hins tuttugu ára gamla Nguyen Dinh …
Nguyen Dinh Gia, faðir hins tuttugu ára gamla Nguyen Dinh Luong sem er talinn vera einn af þeim 39 sem fundust í tengivagninum. Hann heldur hér á mynd af syni sínum. AFP

Fjölskyldur víetnamskra einstaklinga sem talið er að hafi verið í tengi­vagni flutn­inga­bíls, sem fannst í Essex í Bretlandi í síðustu viku með 39 lík innanborðs, eru nú stórskuldugar eftir að hafa greitt smyglurum fyrir að koma börnum þeirra ólöglega til Evrópu. 

Fjölskyldurnar hafa ekki hugmynd um það hvernig þau eigi að greiða niður svimandi há lánin. Börnin þeirra ætluðu að senda peninga til fjölskyldna sinna eftir að þau hefðu útvegað sér vinnu í Bretlandi. Það virðist þó vera sem svo að ekkert verði úr þeim áætlunum en 39 einstaklingar af kínverskum og víetnömskum uppruna fundust látnir í áðurnefndum tengivagni. 

Nokkrar fjölskyldur sem búa í miðju Víetnam telja að ástvinir þeirra hafi verið í tengivagninum.

Peningarnir voru látnir af hendi til smyglara fyrir flugferðir, fölsuð vegabréf og far með flutningabílum til Evrópu, eins helsta áningarstaðs farandverkamanna sem yfirgefa heimalandið í þeim tilgangi að skapa sér betra líf á erlendri grundu. 

Ljósmynd af Nguyen Dinh Luong.
Ljósmynd af Nguyen Dinh Luong. AFP

Sum barnanna höfðu nú þegar fundið sér störf í Evrópu og sent hundruð bandaríkjadala til fjölskyldna sína í hverjum mánuði. Fjölskyldurnar sem um ræðir búa í fátækum hluta Víetnam og þar starfa flestir við landbúnað, sjávarútveg eða sem verkamenn í verksmiðjum. 

„Við skuldum enn 8.600 bandaríkjadali [eina milljón íslenskra króna],“ sagði Nguyen Dinh Gia, faðir Nguyen Dinh Luong sem Gia telur að hafi verið í tengivagninum, í samtali við blaðamann AFP. 

Bændur sem lifa á börnum sínum

Fjölskylda Luong fékk lán hjá ættingjum til að fjármagna ferð Luongs til Rússland og þaðan til Frakklands þar sem hann starfaði sem þjónn frá árinu 2018. 

Luong hafði sent á milli 250 og 430 dali heim mánaðarlega til þess að borga lánið til baka og lofaði fjölskyldu sinni að hann myndi finna vinnu svo hann gæti sent fjölskyldu sinni meiri pening. Luong vonaðist til að geta unnið sér inn meiri pening í Bretlandi og bað fjölskyldu sína um 14.000 dali í viðbót svo hann gæti greitt smyglurum fyrir farið þangað. Fjölskylda Luong hefur ekki heyrt í honum síðan.

„Við erum bændur og getum ekkert gert. Við lifum af börnunum okkar núna,“ sagði Gia. Sjö barna hans eru enn í Víetnam. 

Hoang Lanh, faðir hins átján ára gamla Hoang Van Tiep, …
Hoang Lanh, faðir hins átján ára gamla Hoang Van Tiep, heldur á mynd af syni sínum. AFP

Héröð í miðju Víetnam hafa lengi barist við fátækt vegna umhverfishamfara, takmarkaðrar þróunar og ófyrirsjáanlegum loftslagsbreytingum sem hafa komið illa við íbúa.

Fátæktin neyðir fjölskyldur gjarnan til að leita fjárhagsaðstoðar hjá ríkinu en það er algengt að fátækar víetnamskar fjölskyldur fái lán hjá ríkinu á lágum vöxtum. Sumir nota peninginn til að opna búðir eða byggja hús. Aðrir nota hann til að senda börnin sín til útlanda. 

Það gerði Hoang Lanh en hann greiddi smyglurum fyrir að senda son sinn Hoang Van Tiep til Evrópu. Tiep kom til Frakklands fyrir ári en nú óttast Lanh að sonur hans sé einn af þeim sem fundust í flutningabílnum. 

Hoang Thi Ai, móðir Hoang Van Tiep.
Hoang Thi Ai, móðir Hoang Van Tiep. AFP

Þó að sonur hans hafi reglulega sent pening sem hann aflaði við uppþvottastarf heim þá skuldar faðir hans enn 4.300 bandaríkjadali, eða því sem nemur rúmlega hálfri milljón íslenskra króna. 

Þénar 25.000 íslenskar krónur mánaðarlega

„Við vitum ekki hvernig við eigum að greiða skuldina til baka. Ég er ekki með neina áætlun um það,“ sagði Lanh sem starfar við fiskveiðar og þénar ekki nema 200 bandaríkjadölum, eða því sem nemur 25.000 íslenskum krónum, mánaðarlega. 

Hoang lagði landskikann sinn að veði fyrir láni hjá ríkisbanka þar sem hann á fáar aðrar eignir. Umsækjendur geta einnig kynnt viðskiptaáætlun til að fá lánað fé. 

Barn skoðar mynd af 37 ára gömlum föður sínum, Bui …
Barn skoðar mynd af 37 ára gömlum föður sínum, Bui Phan Thang. Talið er að hann sé einn af hinum 39 sem fundust. AFP

Það er auðvelt að fá ríkislán í Víetnam. Þó lántakendur eigi ekki að eyða peningunum í daglegar þarfir þá hafa yfirvöld litla yfirsýn yfir það hvernig peningunum er varið. 

Embættismenn í Bretlandi og Víetnam hafa enn ekki borið kennsl á líkin 39 sem fundust í tengivagninum. 

Mimi Vu, sérfræðingur í ólöglegum fólksflutningum, sagði við blaðamann AFP að fjölskyldur festust gjarnan í sambærilegum skuldum. Þær skulduðu smyglurum, bönkum eða ættingjum og ættu á hættu að þurfa að endurtaka hringrásina með því að senda annað barn sitt til útlanda til þess að reyna að greiða upp skuldina. 

Bui Phan Chinh, faðir Bui Phan Thang.
Bui Phan Chinh, faðir Bui Phan Thang. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert