Fer ekki í ritdeilu við verðlaunahöfund

Mette Frederiksen á þingi Norðurlandaráðs í dag.
Mette Frederiksen á þingi Norðurlandaráðs í dag. Ljósmynd/Johannes Jansson/Norden.org

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segist ekki sammála gagnrýni danska  rithöfundarins Jonas Eika sem gagnrýndi stefnu Danmerkur í málefnum útlendinga þegar hann tók við bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í gær. Hún segist ekki ætla að standa í ritdeilu við Eika.

Danski rithöfundurinn Jonas Eika við afhendingu Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í gær.
Danski rithöfundurinn Jonas Eika við afhendingu Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í gær. Ljósmynd/Magnus Froderberg/Norden.org

Í þakkarræðu sinni sagði Eika meðal annars að í Dan­mörku væri „rík­is­ras­ismi“, stefna Frederik­sen væri „of­beld­is­full“ og til þess fallin að aðskilja fjöl­skyld­ur. Hann beindi orðum sínum einnig að for­sæt­is­ráðherr­um hinna Norður­land­anna. „Einnig í ykk­ar lönd­um er fólki á flótta komið fyr­ir í lokuðum fang­els­um eða af­vikn­um flótta­manna­búðum. Það brýt­ur fólk niður, það ger­ir það veikt, sum­ir reyna að taka eigið líf,“ sagði rit­höf­und­ur­inn.

Ósammála þeirri mynd sem dregin var upp af Danmörku

„Ég er algerlega ósammála þeirri mynd sem dregin var upp af Danmörku og hinum Norðurlöndunum,“ sagði Frederiksen á blaðamannafundi í Stokkhólmi í dag. „Og ég ætla mér ekki að standa í ritdeilu við verðlaunarithöfund. Það er tjáningarfrelsi og fólk getur sagt það sem það vill. Ég er ósammála honum, en ég er ánægð með að Danmörk hlaut tvenn verðlaun í gær. Það segir eitthvað,“ sagði Frederiksen, en Danir fengu einnig kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir kvikmyndina Dronningen, sem leikstýrt er af May el-Toukhy.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert