Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segist ekki sammála gagnrýni danska rithöfundarins Jonas Eika sem gagnrýndi stefnu Danmerkur í málefnum útlendinga þegar hann tók við bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í gær. Hún segist ekki ætla að standa í ritdeilu við Eika.
Í þakkarræðu sinni sagði Eika meðal annars að í Danmörku væri „ríkisrasismi“, stefna Frederiksen væri „ofbeldisfull“ og til þess fallin að aðskilja fjölskyldur. Hann beindi orðum sínum einnig að forsætisráðherrum hinna Norðurlandanna. „Einnig í ykkar löndum er fólki á flótta komið fyrir í lokuðum fangelsum eða afviknum flóttamannabúðum. Það brýtur fólk niður, það gerir það veikt, sumir reyna að taka eigið líf,“ sagði rithöfundurinn.
„Ég er algerlega ósammála þeirri mynd sem dregin var upp af Danmörku og hinum Norðurlöndunum,“ sagði Frederiksen á blaðamannafundi í Stokkhólmi í dag. „Og ég ætla mér ekki að standa í ritdeilu við verðlaunarithöfund. Það er tjáningarfrelsi og fólk getur sagt það sem það vill. Ég er ósammála honum, en ég er ánægð með að Danmörk hlaut tvenn verðlaun í gær. Það segir eitthvað,“ sagði Frederiksen, en Danir fengu einnig kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir kvikmyndina Dronningen, sem leikstýrt er af May el-Toukhy.