Stærsta kafbátaaðgerð Rússa síðan í kalda stríðinu

Rússneski kjarnorkukafbáturinn Severodvinsk, K-560, sem tilheyrir Yasen-framleiðslulínunni, er einn sá …
Rússneski kjarnorkukafbáturinn Severodvinsk, K-560, sem tilheyrir Yasen-framleiðslulínunni, er einn sá skæðasti í Norðurflota Rússa og var hleypt af stokkunum í júní 2010. K-560 nær allt að 65 kílómetra hraða (35 hnútar) í kafi, er búinn tíu tundurskeytahlaupum og getur borið 40 Kalibr-eldflaugar, sem nota má gegn skotmörkum á landi, á yfirborði sjávar og neðansjávar, auk 32 Oniks-flauga sem beita má gegn skipum á yfirborði. K-560 tekur þátt í aðgerð um tíu rússneskra kafbáta sem nú stendur yfir við Norður-Noreg. Ljósmynd/Norski flugherinn

Í byrjun síðustu viku hélt fyrsti rússneski kafbáturinn frá lægi sínu á Murmansk-svæðinu á Kólaskaganum og sigldi rakleiðis yfir mörk Rússlands og Noregs sem ná frá Kirkenes í Finnmörku, reyndar aðeins sólarhringum áður en rússneskir og norskir ráðherrar funduðu í Kirkenes í tilefni þess að 75 ár voru liðin frá því sovéskir og norskir hermenn hrifsuðu Austur-Finnmörku úr höndum nasista í október 1944.

Í kjölfarið fylgdi um tugur annarra kafbáta, þar af átta kjarnorkuknúnir og sumir þeirra búnir burðarflaugum með nægilegt drægi til að hæfa skotmörk á austurströnd Bandaríkjanna. Í flotanum er einnig að finna báta af gerðinni Sierra með títaníumskrokki sem gerir þeim kleift að kafa niður á allt að 750 metra dýpi sé miðað við aðra kynslóð þeirrar gerðar sem hleypt var af stokkunum árið 1990.

Sýna mátt og megin á hafinu

Heimildarmenn innan norsku leyniþjónustunnar segja norskum fjölmiðlum í dag að hér sé ekki um æfingu að ræða heldur aðgerð sem ætlað sé að sýna mátt og megin rússneska Norðurflotans og sé hér á ferð stærsta kafbátaaðgerð Rússa síðan á síðustu árum kalda stríðsins um 1990.

Takmark Rússanna sé að sýna umheiminum að þeir geti siglt óséðir út á Atlantshafið og komið sér í færi við borgir á austurströnd Bandaríkjanna með því að sigla yfir GIUK-línuna svokölluðu sem er ímynduð lína milli Grænlands, Íslands og Bretlands (GIUK: Greenland-Iceland-UK) en handan hennar geta flaugar rússneskra kafbáta hæft borgir á borð við New York.

Rússnesku bátarnir hafa þó ekki farið alveg óséðir því kafbátaleitarflugvélar norska flughersins, sem flogið hafa til og frá flugherstöðinni á Andøya í Nordland-fylki síðustu vikuna, hafa getað fylgst með ferðum þeirra og er leyniþjónustunni að eigin sögn kunnugt um staðsetningu flestra bátanna. Þaðan berast enn fremur þær upplýsingar að hér sé ekki um að ræða aðgerð runna undan rifjum rússneska sjóhersins sjálfs heldur sé henni stjórnað frá æðstu véum stjórnkerfisins.

Í takt við annað hjá Rússum

„Þetta er í takt við það sem við höfum verið að sjá hjá Rússunum undanfarið,“ segir Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, við norska ríkisútvarpið NRK í dag. „Núna upplifum við Rússland sem hefur uppfært hernaðarmátt sinn og stendur í auknum mæli fyrir æfingum og aðgerðum í æ meira návígi við Noreg.“ Hann segir enn fremur að nú sé Norðmönnum nauðugur einn kostur að búa yfir herstyrk sem beita megi í nyrstu byggðum Noregs, hvort tveggja einum sér og í samstarfi við bandamenn.

Ståle Ulriksen, varnarmálasérfræðingur við norska sjóherskólann (n. Sjøkrigsskolen), ræðir einnig við NRK og segir helst líta út fyrir að helmingi rússnesku kafbátanna sé beitt til að loka hafsvæðinu milli Finnmerkur, Bjarnareyjar og Svalbarða.

„Þetta er í eðli sínu varnaruppstilling en eins er vel mögulegt að ætlunin sé að halda mun lengra út á Atlantshafið. Sé svo er um að ræða mikla ógn við birgðaflutningaleiðir Atlantshafsbandalagsins (NATO). Fyrst og fremst eru það nýjustu [rússnesku] kafbátarnir sem þarna er unnt að beita,“ segir Ulriksen að lokum.

VG

VG II

The Barents Observer

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka