Litríkur og umdeildur þingforseti kveður

John Bercow stjórnar þingfundi í neðri deild breska þingsins fyrr …
John Bercow stjórnar þingfundi í neðri deild breska þingsins fyrr í þessum mánuði. AFP

Forseti neðri deildar breska þingsins, hinn litríki og umdeildi John Bercow, lét formlega af embætti í dag eftir að hafa gegnt því í um áratug. Bercow var kosinn þingmaður árið 1997 fyrir Íhaldsflokkinn og tók við embætti þingforseta árið 2009.

Þingforsetans verður sennilega ekki hvað síst minnst fyrir fjölbreyttan orðaforða í störfum sínum en þingmenn hafa bæði í alvöru og til gamans talað um að Bercow hafi stuðlað að notkun orða sem hafi nánast verið fallin úr notkun í ensku.

Forsetans verður ekki síður minnst vegna orðsins „order“ sem hann notaði miskunnarlaust til þess að halda uppi aga í þinginu. Fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins BBC að hann hafi notað orðið um 14 þúsund sinnum í því skyni.

Reyndar fann Bercow ekki upp notkun orðsins í þessum tilgangi enda höfðu forverar hans gert slíkt hið sama. Hins vegar var framsetningin á því hans og sagði einn þingmaður að breskir foreldrar hefðu tekið sér það til fyrirmyndar við að aga börn sín.

Bercow hefur í seinni tíð verið gagnrýndur harðlega fyrir að brjóta ýmsar þinghefðir í tengslum við umfjöllun neðri deildarinnar um fyrirhugaða útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og verið sakaður um að gæta ekki hlutleysis í þeim efnum.

Hér að neðan má hlusta á þingmenn í neðri deild breska þingsins flytja ræður til heiðurs Bercow í tilefni þess að hann væri að láta af embætti sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert