Spánn hefur boðist til þess að halda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP25, í höfuðborg sinni Madríd eftir að forseti Síle tilkynnti í gær að ekki yrði unnt að halda ráðstefnuna í Santíago vegna óeirða.
Sebastián Piñera sagði að forgangsraða þyrfti í þágu stillingar meðal almennings, en mótmæli hafa staðið yfir í Síle í nokkrar vikur vegna bágra lífskjara og tugir hafa látist.
Til stóð að ráðstefnan færi fram í höfuðborginni Santíago í desember. Loftslagsráð SÞ mun taka boð Spánverja fyrir í næstu viku og kemur þá í ljós hvort og hvenær ráðstefnan verður haldin.