Klúrar jólasveinastelpur úr sögunni

Jólabjórdeginum var fagnað hér á landi í fyrra.
Jólabjórdeginum var fagnað hér á landi í fyrra.

Jólabjórdagurinn, eða J-dagurinn eins og hann er gjarnan kallaður, er í dag en hann hlýtur nafn sitt af því að í kvöld klukkan 20:59 hefst sala á Tuborg jólabjór. Jafnan er mikið um dýrðir í Danmörku þar sem jólabjórlestin ekur um götur borga og bæja og fram að þessu hafa konur í bláum, stuttum og þröngum jólasveinabúningum merktum Tuborg verið áberandi í hátíðahöldunum.

En nú verða þar fleiri karlar og einnig verða dragdrottningar með í för. Allir verða í eins klæðnaði, óháð kyni.

Klúrar jólasveinastelpur í níðþröngum stuttum kjólum með kanínueyru og bjöllur um hálsinn eru tímaskekkja. Þetta segir  Kasper Elbjørn, fjölmiðlafulltrúi dönsku Carlsberg-bjórverksmiðjunnar sem framleiðir bjórinn, í samtali við danska ríkisútvarpið DR. 

Dagurinn á að vera í samræmi við tíðarandann

„Við viljum senda þau skilaboð að þessi viðburður sé fyrir allt fullorðið fólk. J-dagurinn á að vera í samræmi við tíðarandann og þau gildi sem við viljum tileinka okkur,“ segir Elbjørn. „Þess vegna erum við sífellt að endurskoða hvernig við höldum upp á daginn þannig að hann hafi víðtæka skírskotun sem jólahefð sem allir geta tekið þátt í.“

Þá eiga allir bláklæddu jólasveinarnir og -sveinkurnar nú að skrifa undir samning varðandi hegðun. Í samningnum eru einnig leiðbeiningar um hvernig þau geta brugðist við, ef þau verða fyrir áreitni. „Jólabjórinn okkar er afar áfengur. Það á vel að geta farið saman að skemmta sér og að starfsfólkinu okkar finnist það vera öruggt,“ segir Elbjørn.

J-deginum verður einnig fagnað hér á landi og hafa fjölmargir veitingastaðir boðað hátíðahöld í tilefni hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert