Leikkonan og loftslagsaðgerðasinninn Jane Fonda var handtekin í gær fyrir að mótmæla aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum í bandaríska þinghúsinu í Washington. Þetta er í annað skiptið á skömmum tíma sem hin 81 ára Fonda er handtekin fyrir mótmæli, en óheimilt er að mótmæla í þinghúsinu.
Fonda hafði komið sér fyrir á gólfi þinghússins með hópi fólks, en þeirra á meðal voru leikkonurnar Rosanna Arquette og Catherine Keener. Fonda sagði að Greta Thunberg hefði veitt sér innblástur. „Það er hægt að berjast á margan hátt fyrir málstaðnum. En ég er innblásin af Gretu Thunberg og ungum aðgerðasinnum um víða veröld,“ sagði Fonda við handtökuna.
„Ég er þekkt. Svo ég nýti mér frægð mína til að koma þeim skilaboðum á framfæri að við stöndum frammi fyrir ástandi og það, hvernig við bregðust við því, gæti skorið úr um hvort og hvernig börnin okkar og barnabörnin muni eiga bærilega framtíð.“
Leikkonan var í haldi lögreglu í nótt og til stendur að hún komi fyrir dómara í dag. Hún hefur verið ákærð fyrir átroðning og truflun. Hún er hvergi af baki dottin í mótmælunum og hefur þegar boðað að hún muni mótmæla næstkomandi föstudag ásamt stofnanda ísframleiðandans Ben & Jerry, leikkonunni Diane Lane og leikaranum Mark Ruffalo. Hún segist vera tilbúin til að láta handtaka sig eins lengi og þörf þyki, a.m.k. fram í miðjan janúar, en þá snýr hún aftur til starfa við upptökur á þáttunum vinsælu Grace and Frankie sem sýndir eru á Netflix.