Þjóðerni fólksins í tengivagninum staðfest

Tengivagninum ekið á brott þaðan sem hann fannst.
Tengivagninum ekið á brott þaðan sem hann fannst. AFP

Staðfest hefur verið að fólkið, sem fannst látið í  tengi­vagni flutn­inga­bíls, sem fannst í bæn­um Thurrock í Essex-héraði í suðaust­ur­hluta Eng­lands 23. október er frá Víetnam. Stjórnvöld í Víetnam fordæma harðlega mansal og ólöglega flutninga fólks.

Talið er að meirihluti fólksins hafi komið frá miðhluta landsins en þar herja smyglarar á íbúa og lofa að flytja þá til Evrópu, yfirleitt í gegnum Rússland, og að þar bíði þeirra betra líf. Tvennt var handtekið í Ha Tinh-héraði, í miðhluta Víetnam í gær í tengslum við málið. Fleiri eru grunaðir um að tengjast málinu, samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar.

Í yfirlýsingu fordæmir Le Thi Thu Hang, talskona utanríkisráðuneytis Víetnam, atvikið harðlega. Um sé að ræða alvarlegan harmleik og kallar eftir samstöðu ríkja um að stöðva smygl á fólki. „Ríkisstjórn Víetnam hvetur ríki í þessum heimshluta og um heim allan að taka höndum saman um að berjast gegn ólöglegum flutningum á fólki til að koma í veg fyrir að harmleikur sem þessi endurtaki sig,“ segir í yfirlýsingunni.

Unnið er að því að bera kennsl á fólkið sem fannst látið í vagninum.

Bílstjóri flutningabílsins sem flutti tengivagninn, norður-írskur karlmaður, hefur verið ákærður fyrir manndráp, peningaþvætti og ólöglega fólksflutninga. Annar Norður-Íri hefur verið handtekinn í Dublin og er unnið að framsali hans til Bretlands. Þá leitar breska lögreglann tveggja norður-írskra bræðra sem starfa við flutninga vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert