Johnson bíður brottvísunar frá Noregi

Bandaríski hægriöfgamaðurinn og bókaútgefandinn Greg Johnson var handtekinn í Ósló …
Bandaríski hægriöfgamaðurinn og bókaútgefandinn Greg Johnson var handtekinn í Ósló í gærmorgun þar sem honum var ætlað að koma fram á Scandza Forum, ráðstefnu þjóðernissinna í Skandinavíu sem reglulega hefur verið haldin í Danmörku, Noregi og Svíþjóð síðan 2017. Johnson hyllti Anders Behring Breivik árið 2012 og sagði hann hafa gripið til sjálfsvarnar gegn þjóðarmorði norska Verkamannaflokksins þar sem innflytjendur væru vopnið. Ljósmynd/Heimasíða Scandza Forum

Bandaríski hægriöfgamaðurinn Greg Johnson bíður þess nú að vera vísað úr landi í Noregi. Hann var handtekinn í gær með heim­ild til út­lend­ingalag­anna, en tilgangur heim­sókn­ar John­son til Ósló­ar var að koma fram á Scandza For­um, ráðstefnu norskra þjóðern­is­sinna. 

Mart­in Bern­sen, talsmaður norsku ör­ygg­is­lög­regl­unn­ar PST, segir í samtali við norska dagblaðið Aftenposten að handtakan og brottvísunin sé hluti af fyrirbyggjandi aðgerðum norsku lögreglunnar og PST. „Til að hindra að hægriöfgahreyfingin verði stærri. Það er markmið okkar að viðkvæmir einstaklingar verði ekki fyrir áhrifum,“ segir Bernsen.

Hann segir að Johnson sé skilgreindur sem „opinber öfgamaður“. Honum hafi verið kynnt að til standi að vísa honum úr landi og houm sé frjálst að koma með athugasemdir við það. Til standi, að öllu óbreyttu, að vísa honum úr landi eins fljótt og auðið verði.

John Christian Elden, lögmaður Johnsons, segir í samtali við Aftenposten að skjólstæðingur sinn þvertaki fyrir að vera á nokkurn hátt ógn við norskt samfélag. „Hann er búsettur í landi Evrópusambandsins og var boðið hingað til lands til að tjá sig,“ segir Elden. „Manni þarf hvorki að líka við hann eða hafa áhuga á að hlusta á hann, en að hindra hann í að tjá sig á löglegan hátt er rangt.“

Hann segir að næsti viðkomustaður Johnsons sé í Portúgal, þar sem hann muni koma fram á ráðstefnu.

Johnson er rit­stjóri vefsíðunn­ar og bóka­út­gáf­unn­ar Coun­ter-Cur­rents sem meðal ann­ars hef­ur sent frá sér bæk­ur á borð við The White Nati­ona­list Mani­festo og Tow­ards a New Nati­ona­lism sem auk ann­ars efn­is út­gáf­unn­ar hampa yf­ir­burðum hvíta kyn­stofns­ins. Í fyrrnefndu bókinni segir hann m.a. að fjölmenningarsamfélagið sé félagsfræðileg tilraun sem alþjóðlegir forréttindahópar hafi þvingað upp á þjóðir sem ekkert vilji hafa með þessa þjóðfélagsgerð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert