Mótmælendur loka vegum og byggingum

Íraskir mótmælendur loka hraðbrautinni sem leiðir að höfninni í Umm …
Íraskir mótmælendur loka hraðbrautinni sem leiðir að höfninni í Umm Qasr. AFP

Mótmælendur í Bagdad og öðrum borgum í Írak lokuðu götum, skólum og opinberum skrifstofum í dag og halda óeirðir áfram að stigmagnast í landinu. Mótmælendur krefjast fyrst og fremst umbóta í íröskum stjórnmálum. 

Mótmælendur lögðu bílum þvert á helstu umferðaræðar höfuðborgarinnar og hindruðu þannig umferð á fyrsta vinnudegi vikunnar. Lögregluþjónar á nærliggjandi eftirlitsstöðvum fylgdust með en gripu ekki til aðgerða. Háskólanemar tóku þátt í setuverkföllum og kennarasamband Íraks framlengdi verkfallsaðgerðir sem það hóf í síðustu viku. Stéttarfélög verkfræðinga, lækna og lögfræðinga styðja verkfallsaðgerðirnar. 

Yfir 220 hafa látist frá því mótmælin hófust fyrir mánuði.
Yfir 220 hafa látist frá því mótmælin hófust fyrir mánuði. AFP

„Við ákváðum að loka vegunum til að senda skilaboð til ríkisstjórnarinnar um að við munum halda áfram að mótmæla þangað til spilltu fólki og þjófum hefur verið hent út og stjórnin fellur,“ sagði Tahseen Nasser, 25 ára mótmælandi í borginni Kut í austurhluta landsins. 

„Við leyfum starfsfólki ríkisstjórnarinnar ekki að komast á skrifstofur sínar, aðeins þeim sem sinna mannúðarstarfi eins og starfsfólk spítala.“

Hafa fengið nóg af spillingu og atvinnuleysi

Mótmælin hófust 1. október vegna hömlulausrar spillingar og atvinnuleysis í landinu, en öryggissveitir stjórnvalda tóku hart á mótmælendum og hafa að minnsta kosti 220 látið lífið. Nokkurt hlé varð á mótmælunum vegna harðra aðgerða öryggissveita, en þau hófust að nýju 25. október. 

Ríkisstjórn Íraks hefur lagt til ýmsar umbætur en ekki haft erindi sem erfiði í að lægja mótmælaöldurnar. 

„Við ákváðum að fara af stað með þessa herferð af borgaralegri óhlýðni vegna þess að við erum komin með nóg af lygum ríkisstjórnarinnar og loforðum um svokallaðar umbætur,“ sagði Mohammad al-Assadi, starfsmaður ríkisins sem tekur þátt í verkfallsaðgerðum í borginni Nasiriyah í suðurhluta landsins. 

Íraskir mótmælendur loka hraðbrautinni sem leiðir að höfninni í Umm …
Íraskir mótmælendur loka hraðbrautinni sem leiðir að höfninni í Umm Qasr. AFP

Mótmælendur í Nasiriyah skipulögðu setuverkföll á fjórum brúm sem greiða leiðina inn í borgina og á helstu torgum og vegum borgarinnar. Skólum og skrifstofum hins opinbera var lokað í Nasiriyah og sex öðrum borgum í suðurhluta Íraks. 

Mótmælendur hafa einnig lokað hraðbrautinni sem liggur að höfninni Umm Qasr sem er ein helsta rás matar, lyfja og annarra innflutningsvara í landið. Samkvæmt heimildum AFP við höfnina lögðu 12 skip úr höfn í gær eftir að hafa beðið affermingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert