Átta handtekin vegna tengivagnsmálsins

Fjölmargir hafa minnst þeirra látnu með því að leggja blóm …
Fjölmargir hafa minnst þeirra látnu með því að leggja blóm nálægt staðnum sem fólkið fannst. Meðal þeirra er Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands. AFP

Lögregla í Víetnam hefur handtekið átta manns vegna gruns um aðild að dauða 39 manns, kvenna, karla og unglings, sem fundust látin í tengivagni flutningabíls á iðnaðarsvæði í bæn­um Thurrock í Essex-héraði í suðaust­ur­hluta Eng­lands 23. októ­ber.

Áður höfðu tveir verið handteknir í Víetnam vegna málsins og tveir norðurírskir karlmenn eru í haldi bresku lögreglunnar vegna málsins, annar þeirra var bílstjóri flutningabílsins sem flutti tengivagninn og hefur hann verið ákærður fyrir mann­dráp, pen­ingaþvætti og ólög­lega fólks­flutn­inga.

Í frétt Sky News fréttastofunnar er haft eftir Nguyen Huu Cau, talsmanni víetnömsku lögreglunnar, að málið sé rannsakað sem smygl á fólki, en ekki sem mansalsmál. „Við munum hefja rannsókn á þessum samtökum sem flytja fólk ólöglega til Bretlands og uppræta þau,“ er haft eftir Cau.

Talið er að fólkið sem lést hafi flest komið frá héruðunum Nghe An og Ha Tinh í miðhluta Víetnam, en þar er mikil fátækt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert