Fangelsisvist gæti fljótlega beðið þeirra sem fara um á rafskútum á göngustígum í Singapúr, eftir að nýjar reglur tóku þar gildi í dag. Fjöldi slysa og reiði borgara vegna þeirra er ástæðan fyrir því að stjórnvöld í borgríkinu telja sig knúin til þess að setja þessar reglur.
Nú má einungis fara um á rafskútum á hjólastígum og á tilteknum stígum á milli almenningsgarða í borginni, en þegar var búið að taka ákvörðun um að banna tækin á akvegum, auk þess sem það er skylda að skrá rafskútur á göturnar.
Í frétt AFP-fréttastofunnar um þessar hertu reglur segir að aðlögunartími vegna þeirra verði til áramóta og þeir sem gerist sekir um brot á nýju reglunum þangað til muni einungis fá viðvaranir. Að því loknu munu sektir og allt að tveggja mánaða fangelsisdómar liggja við brotunum.
Samgönguyfirvöld segja að þetta sé nauðsynlegt til þess að tryggja öryggi gangandi vegfarenda, „þar sem slysum sem tengjast villuráfandi rafskútumönnum hafi fjölgað þrátt fyrir aukna löggæslu og fræðslu“ af hálfu yfirvalda.