Formlega óskað eftir úrsögn

Frá Los Angeles.
Frá Los Angeles. AFP

Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur formlega tilkynnt Sameinuðu þjóðunum um úrsögn Bandaríkjanna úr Parísarsamkomulaginu. Ákvörðun Bandaríkjanna hefur valdið miklum vonbrigðum meðal annarra ríkja. 

Um eins árs ferli er að ræða og tekur úrsögnin gildi daginn eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á næsta ári. Samkomulagið skuldbatt 188 ríki til þess að vinna saman gegn loftslagsbreytingum. Fulltrúar 187 ríkja auk Bandaríkjanna undirrituðu samkomulag í París árið 2015 um að halda hlýnun jarðar af mannavöldum innan 2°C marksins og jafnvel undir 1,5°C. 

Donald Trump gerði úrsögn Bandaríkjanna úr samkomulaginu eitt af kosningamálum sínum en samkvæmt reglum Sameinuðu þjóðanna var ekki mögulegt fyrir Bandaríkin að hefja úrsagnarferlið formlega fyrr en 4. nóvember 2019. Tilkynning þar að lútandi, formleg úrsögn, barst síðan í gærkvöldi. 

Donald Trump forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump forseti Bandaríkjanna. AFP

Síðan á eftir að koma í ljós, að loknum forsetakosningum í Bandaríkjunum, hvort staðið verði við brotthvarfið en það fer eftir því hvort Trump verður endurkjörinn forseti Bandaríkjanna segir í frétt BBC.

Þar kemur fram að vísindamenn og umhverfissinnar óttist áhrifin af ákvörðun ríkisstjórnar Bandaríkjanna á verndun loftslags þangað til. Í skýrslu sem var gefin út í desember af Institute of International and European Affairs kemur fram að ákvörðun Trumps um að yfirgefa Parísarsamkomulagið hafi þegar unnið verulegar skemmdir á samkomulaginu þar sem með ákvörðuninni hafi Trump skapað svigrúm fyrir aðra til þess að fylgja í kjölfarið. Í skýrslunni er þar talað um Rússa og Tyrki en hvorugt ríkið hefur viljað staðfesta Parísarsamkomulagið þrátt fyrir að hafa ritað undir það á sínum tíma.

AFP

Í aðsendri grein Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings í Morgunblaðinu í dag er fjallað um ákvörðun Gretu Thunberg um að afþakka umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs í síðustu viku. 

„Ég tók líka eftir því að í umfjöllun norskra fjölmiðla örlaði á tóni móðgunar þegar Greta lét þess getið að Norðmenn hefðu gefið út metfjölda olíuvinnsluleyfa og að nýjasta svæðið sem kennt er við Johan Sverdrup gæti framleitt olíu og gas til næstu 50 ára. Á sinn raunsæislega hátt varpaði hún eiginlegri sprengju framan í forsætisráðherra allra Norðurlandaþjóðanna sem sátu alvörugefnir á fremsta bekk þegar hún bætti við að þess væru engin merki að nauðsynlegar breytingar væru fram undan.

Á eftir klöppuðu allir settlega og hrósuðu Gretu litlu Thunberg fyrir hugrekkið. Þetta er málið, sennilega eru allar Norðurlandaþjóðirnar sekar um tvíræðni í loftslagsmálunum. Hér á landi forðast menn t.d. eins og heitan eldinn að gera upp gamlar syndir stóriðjunnar í losun koltvíildis eða hinn gríðarmikla umhverfiskostnað sem nýja „stóriðjan“ okkar, ferðaþjónustan, er völd að. Þess í stað er sjónum markvisst beint að litlum og sætum aðgerðum sem allir skilja, s.s. eins og að fella niður virðisaukaskatt á reiðhjólum eða auka grænkerafæði í mötuneytum skólabarna.

Olían veldur siðferðiskreppu hjá Norðmönnum

Aftur að Noregi. Stóra siðferðislega þversögnin í umhverfismálum þar er sú að á sama tíma og landsmenn telja sig með réttu vera í forustu í loftslagsmálum eru Norðmenn með sjálft ríkið í fararbroddi að þéna stórar fúlgur fjár á olíu- og gasvinnslu. Hlutur Norðmanna er um 2% heimsframleiðslunnar. Equinor (sem áður hét Statoil) bendir sífellt á að hætti Norðmenn að vinna olíu gætu aðrir auðveldlega dælt upp því sem annars vantaði fyrir óseðjandi markaðinn. Þeir klifa líka stöðugt á því að vinnslusvæðið sé umhverfisvænt því notast er við rafmagn ofan af landi við uppdælinguna. Það sé nær einstakt í heiminum í dag.

Mörg fjölþjóðleg stórfyrirtæki í jarðefnaeldsneyti reyna hvað þau geta að rugla myndina, draga vísindin í efa, dreifa röngum áróðri o.s.frv. Norðmenn fara aðeins aðrar leiðir, en slá engu að síður ryki í augu fólks þegar þeir reyna að telja fólki heima fyrir trú um umhverfisvænan olíuiðnað. Og svo virðist sem landsmenn trúi fegrunaraðgerðunum og það hentar ágætlega sálarlífi norsku þjóðarinnar þessa dagana. En þegar kafað er dýpra kemur í ljós að vinnslan sjálf losar um 60 kg koltvíildis á hvert tonn hráolíu á meðan 3.000 kg losna við sjálfan brunann.

Það er ekki nema mánuður síðan fyrstu olíudroparnir fóru að renna um leiðslurnar á nýja Sverdrup-svæðinu djúpt vestur af Stafangri. Á næstu árum mun það standa undir þriðjungi allrar olíuframleiðslu Noregs. Losun koltvíildis við brennslu allrar þeirrar olíu sem vænta má úr þessum brunnum samsvarar allri losun gróðurhúsalofttegunda í Noregi í 21 ár!“ segir í grein Einars í Morgunblaðinu í dag. 

Eigum við að mótmæla í Norðurlandaráði?

Er réttlætanlegt að horfa þegjandi á ný og ný hafsvæði þar sem borað er eftir olíu í raun ekki svo ýkja langt frá okkur? Á sama tíma og streðað er við að ná markmiðum Parísarsamningsins!

Innan Norðurlandasamstarfsins eigum við rödd og líka áhrif. Eins í norðurskautsráðinu. Þar sitja líka Bandaríkjamenn og Rússar við okkar borð. Við getum líkt og Svíar hér áður, sem mótmæltu kröftuglega hvalveiðum Íslendinga, beitt okkur meira á þessum vettvangi. Snýst vitanlega um pólitískt þor, en kannski ekki síður hvort við höfum efni á að setjast í slíkt hásæti dómarans í loftslagsmálum.

Höfundur er veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni ehf.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka