Þriðja lota hassmálsins endalausa

Eirik Jensen, þá sextugur, gengur í sal 250 í Héraðsdómi …
Eirik Jensen, þá sextugur, gengur í sal 250 í Héraðsdómi Óslóar 18. september 2017 þar sem niðurstaðan varð 21 árs fangelsi. Tveimur árum síðar er mál Jensens á leið í nýja meðferð frá grunni fyrir lögmannsrétti og hann hefur ekki hafið afplánun. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Í fyrramálið hefst þriðja lotan í hinu langvinna hassmáli yfirlögregluþjónsins fyrrverandi í Ósló, Eirik Jensens, og fer málið nú á ný fyrir Lögmannsrétt Borgarþings þar sem dómarar viku sýknuúrskurði kviðdóms til hliðar 28. janúar.

Nokkurt vatn er runnið til sjávar síðan Jensen hlaut 21 árs dóm í héraði 18. september 2017 fyrir hlutdeild í innflutningi á 14 tonnum af hassi í samstarfi við Gjermund Cappelen, hasskónginn frá Bærum, sem sjálfur hlaut 15 ára dóm fyrir innflutning á 16,7 tonnum að fengnum ríflegum afslætti í ákæru Lars Erik Alfheim saksóknara fyrir að benda á samstarfsmann sinn úr röðum lögreglunnar.

Cappelen ákvað að una sinni refsingu, Jensen ekki, og áfrýjuðu þeir John Christian Elden, verjandi hans, málinu til lögmannsréttar þar sem síðasti kviðdómur Noregs, en Stórþingið samþykkti þá breyt­ingu á norsk­um hegn­ing­ar­lög­um með gildis­töku 1. janú­ar 2018 að leggja kviðdóma af, las upp þann úrskurð sinn í hádeginu 28. janúar í ár, að Jensen skyldi vera sýkn af innflutningi á 14 tonnum af hassi en sekur um stórfellda spillingu.

Fjölmiðlar ræða við Gjermund Cappelen í héraðsdómi rétt áður en …
Fjölmiðlar ræða við Gjermund Cappelen í héraðsdómi rétt áður en dómarar gengu í salinn og dæmdu hann í 15 ára fangelsi. Í forgrunni er John Christian Elden, verjandi Jensens. Fátt var með samstarfsmönnunum fyrrverandi, Jensen og Cappelen, við dómsuppsöguna og horfðust þeir hvorki í augu né ræddust við. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Kristel Heyer­dahl dóms­formaður tók sér tveggja stunda frest ásamt meðdómur­um sín­um til að taka af­stöðu til úr­sk­urðar kviðdóms og gekk sú afstaða þvert á alla tölfræði í kviðdómsmálum: Niður­stöðu kviðdóms var þar vikið til hliðar hvað fíkni­efna­hlut­ann snert­ir með eftirfarandi rökstuðningi: „Dóm­ur­inn tel­ur það hafið yfir vafa að Jen­sen er sek­ur um fíkni­efna­brot og vík­ur niður­stöðu kviðdóms til hliðar. Málið verður rekið á nýj­an leik frá grunni.“ Elden verjandi lá ekki á skoðun sinni í samtali við mbl.is síðdegis sama dag: „Svona virkar réttarríki ekki,“ sagði hann.

Nú er því svo komið að mál Jensens verður rekið á ný fyrir Lögmannsrétti Borgarþings sem er meira að segja það en gera. Frá 28. ágúst í fyrra og fram yfir áramót voru 77 dómþing haldin í málinu þar sem 120 vitni gerðu grein fyrir því sem þau höfðu orðið áskynja í málinu auk þess sem kviðdómendur hlýddu á mörg hundruð ræður sóknar- og varnarhliðar og lásu mörg þúsund blaðsíður af málsgögnum enda hófst umfangsmikil rannsókn lögreglunnar á Jensen snemma árs 2014. Ofan á þetta yngist Jensen ekki, 60 ára þegar hann hlaut 21 árs dóm sem hann hefur ekki hafið að afplána og nú 62 ára.

Eirik Jensen í þungum þönkum sem léttast varla næstu mánuði.
Eirik Jensen í þungum þönkum sem léttast varla næstu mánuði. AFP

 

Kveðja á stuðningssíðu

Sakborningurinn og verjandi hans láta þó engan bilbug á sér finna og hyggjast berjast meðan öndin þaktir í vitum þeirra. Á lokaðri stuðningssíðu Jensens á Facebook, sem nú telur 22.000 félaga, sendir hann eftir langa þögn stuðningsfólki sínu kveðju gegnum Facebook-aðgang Rögnu Lise Vikre, sambýliskonu sinnar, og kastar þar fram eftirfarandi (21. október):

„Til allra í stuðningshópnum! Við höfum ekki gleymt ykkur! Þriðja lotan er yfirvofandi, eitthvað sem við finnum bæði [þau Vikre] fyrir. Eftir síðustu atburði í dómsalnum höfum við lagt mest upp úr því að vera til staðar fyrir hvort annað. Við höfum vísvitandi læðst með veggjum þegar að því kemur að tjá okkur um niðurstöðuna þar og einkalíf okkar. Að byggja hvort annað upp fyrir nýja atrennu í dómsalnum hefur tekið tíma og að sjálfsögðu verið okkur áskorun.

Jákvæðar og huggulegar stuðningsyfirlýsingar á síðunni og það sem borist hefur eftir öðrum leiðum yljar okkur um hjartarætur! Fram undan eru tvær erfiðar vikur af yfirferð skjala og fundum með lögmönnunum. Við drögum ekki fjöður yfir að þrýstingurinn er mikill á okkur eftir síðasta úrskurð dómsins [úrskurði kviðdóms vikið til hliðar], en við höfum ekki kastað inn handklæðinu og erum búin undir orrustu! Og aftur — við Ragna þökkum allan stuðninginn! E og R.“

Fylgst verður með gangi mála í annarri lotu lögmannsréttarins hér á mbl.is.

Gjer­mund Capp­elen ræðir við verj­anda sinn, Benedict de Vibe, en …
Gjer­mund Capp­elen ræðir við verj­anda sinn, Benedict de Vibe, en hon­um á vinstri hönd sit­ur hinn verj­and­inn, Kaja de Vibe Mall­ing, en þau verj­end­ur eru feðgin. „Við skul­um bara sjá hvað dóm­ar­inn seg­ir,“ sagði Capp­elen salla­ró­leg­ur þegar frétta­menn inntu hann spá­dóma um niður­stöðuna í september 2017. Hann hlaut 15 ár. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka