13 ára gekk 23 km eftir hjálp

AFP

Þrettán ára gamall piltur faldi sex systkini sín í kjarri áður en hann fór að sækja hjálp eftir að skotárás var gerð á fjölskylduna í Mexíkó. Pilturinn gekk 23 kílómetra leið eftir hjálp, að sögn fjölskyldu hans en þau eru hluti af LeBaron-mormónafjölskyldunni sem varð fyrir ársás á mánudag.

Átta börn lifðu af árásina en þrjár konur og sex börn létust. Fimm barnanna eru alvarlega særð eftir byssukúlur. 

AFP

Fórn­ar­lömb­in eru öll úr svo­nefndri LeBaron-fjöl­skyldu, fjöl­mennri ætt úr röðum mormóna sem klauf sig út úr mormóna­kirkj­unni í Banda­ríkj­un­um og flutti bú­ferl­um til Mexí­kó fyr­ir nokkr­um ára­tug­um. Árás­in var gerð á sveita­vegi í mexí­kóska rík­inu Son­ora þegar fólkið var í þrem­ur bíl­um á leið á flug­völl í rík­inu Chi­hua­hua.

Tveir fíkni­efna­smygl­hóp­ar hafa bar­ist um yf­ir­ráð yfir svæðinu þar sem árás­in var gerð og sagði ör­ygg­is­málaráðherra Mexí­kó að byssu­menn­irn­ir kynnu að hafa ráðist á fólkið fyr­ir mis­tök, haldið að það til­heyrði öðrum glæpa­hóp­anna. LeBaron-fjöl­skyld­an hef­ur þó áður orðið fyr­ir árás­um glæpa­manna á svæðinu og segir að henni hafi borist hótanir eftir að hafa gagnrýnt starfsemi skipulagðra glæpasamtaka á svæðinu og ofbeldisverk þeirra.

AFP

Samkvæmt frétt CNN voru þrjár mæður og 14 börn þeirra í bílalestinni á leið frá Bavispe í Sonora að morgni mánudags. Konurnar ferðuðust saman af öryggisástæðum hefur CNN eftir ættingja þeirra. 

Eftir að móðir og tveir bræður Devin Langford, 13 ára, voru skotin til bana faldi hann sex systkini sín í kjarri og huldi þau með greinum. Hann gekk síðan í sex klukkustundir þangað til hann kom í búðir mormóna í La Mora, að því er fram kemur á Facebook-síðu ættingja hans Kendra Lee Miller. 

Systir Devins, McKenzie, sem er tæplega 9 ára gömul, yfirgaf systkini sín í kjarrinu eftir að bróðir hennar skilaði sér ekki aftur til þeirra. Eftir að hafa gengið í nokkrar klukkstundir var henni bjargað af leitarhópi.

Fór út með hendur á lofti en var skotin til bana

Sjö mánaða gömul stúlka, Faith Langford, lifði einnig af árásina eftir að móðir hennar, Christina Langford Johnson, náði að ýta bílstól hennar niður á gólf bifreiðarinnar. Christina Langford Johnson fór síðan út úr bílnum með hendur á lofti og bað árásarmennina um að hætta skothríðinni en var skotin til bana að sögn vitna.

AFP

Eftir að Devin komst til La Mora vopnaðist LeBaron-fólkið og ætlaði að fara á vettvang skotárásarinnar. En hópurinn ákvað að bíða eftir aðstoð lögreglunnar enda gerði hann sér grein fyrir því að hann væri á leið út í opinn dauðann. Á þeim tíma höfðu skothvellir bergmálað í fjöllum í nágrenninu klukkutímum saman. 11 klukkustundum síðar fundu þau Faith í bifreiðinni. Börnin sem lifðu af árásina voru flutt með sjúkraflugi til Phoenix. Cody, sem er átta ára, hafði verið skotinn í kjálkann og fótlegg, Kylie, 14 ára, var skotin í fótinn og Xander, sem er fjögurra ára var skotinn í bakið og Brixton, níu mánaða, var skotinn í brjóstið.

Maria Rhonita Miller ásamt fjölskyldu sinni.
Maria Rhonita Miller ásamt fjölskyldu sinni. Af Facebook

Þau sem létust: Maria Rhonita Miller, þrítug að aldri og átta mánaða gamlir tvíburar hennar,  Titus og Tiana. Howard Jr, 12 ára, og Krystal, 10 ára, létust eftir að bifreiðin sem þau voru farþegar í sprakk eftir árásarmennirnir höfðu látið skothríðina dynja á bifreiðinni. 

Nokkrum kílómetrum frá var ráðist á tvær af bifreiðunum og þar létust Dawna Langford, 43 ára, og synir hennar tveggja og 11 ára. 

Einn hefur verið handtekinn í tengslum við árásina og umsátur er um tvo til viðbótar í hæðum Agua Prieta í Sonora.

Frétt CNN

Af Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert