Karólínska sjúkrahúsið í Svíþjóð, þar sem Björn Zoëga, fyrrverandi forstjóri Landspítalans, er forstjóri, tilkynnti í dag um uppsagnir 600 starfsmanna. Kemur þetta í kjölfarið á því að 550 starfsmönnum var sagt upp í maí á þessu ári. Björn tók við starfi forstjóra í byrjun ársins og hefur á þeim tíma því 1.150 starfsmönnum verið sagt upp í hópuppsögnum. Greint er frá uppsögnunum á vef Dagens nyheter.
Uppsagnirnar í dag ná til 250 lækna og 350 sjúkraliða. Í upphafi þessa árs störfuðu 16 þúsund manns hjá sjúkrahúsinu, en í síðustu hópuppsögn var meðal annars 20% af stjórnendum sjúkrahússins sagt upp. Á sjúkrahúsinu eru um 1.400 rúm. Þá var velta spítalans í fyrra um 18 milljarðar sænskra króna, andvirði 239 milljarða íslenskra króna.
Mikill hallarekstur hefur verið á sjúkrahúsinu, en í upphafi þessa árs var gert ráð fyrir að tap spítalans yrði 10,6 milljarðar króna.