Demókratar í þingnefnd Bandaríkjaþings sem rannsakar embættisverk Donalds Trump tilkynntu í dag að vitnaleiðslur vegna rannsóknarinnar verða fyrir opnum tjöldum í næstu viku.
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í síðustu viku að setja rannsókn á embættisverkum Trump í formlegt ferli. Málið snýst einkum um símtal forsetans við forseta Úkraínu og rannsakar þingnefndin hvort Trump hafi nýtt sér stöðu sína sem Bandaríkjaforseti og haft óeðlileg áhrif á erlend stjórnvöld í því skyni að skaða pólitískan andstæðing sinn.
Þrír starfsmenn utanríkisráðuneytisins munu koma fyrir nefndina í næstu viku, en vitnaleiðslur hafa hingað til farið fram fyrir luktum dyrum. Á þriðja tug manns hefur nú þegar komið fyrir nefndina.
Adam Schiff, aðalfulltrúi demókrata í þingnefnd um málefni leyniþjónustunnar, sagði í samtali við fjölmiða í dag að nefndin sé komin vel á veg með að safna gögnum sem ýta undir embættisglöp forsetans.
Trump sakaður um að hafa sett það skilyrði fyrir hernaðaraðstoð við landið að þarlend stjórnvöld rannsökuðu Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og frambjóðanda í forvali Demókrataflokksins vegna forsetakosninganna á næsta ári, og son hans Hunter Biden vegna setu þess síðarnefnda í stjórn úkraínsks orkufyrirtækis.
Vitnaleiðslunum í næstu viku verður streymt beint og mun bæði demókrötum og repúblíkönum í þingnefndinni gefast kostur á spyrja spurninga.