Vitnaleiðslur fara fram fyrir opnum tjöldum

Adam Schiff, aðal­full­trúi demó­krata í þing­nefnd um mál­efni leyniþjón­ust­unn­ar, segir …
Adam Schiff, aðal­full­trúi demó­krata í þing­nefnd um mál­efni leyniþjón­ust­unn­ar, segir að nefndin sé komin vel á veg með að safna gögnum sem ýta undir embættisglöp Donalds Trump Bandaríkjaforseta. AFP

Demókratar í þingnefnd Bandaríkjaþings sem rannsakar embættisverk  Donalds Trump tilkynntu í dag að vitnaleiðslur vegna rannsóknarinnar verða fyrir opnum tjöldum í næstu viku. 

Full­trúa­deild Banda­ríkjaþings samþykkti í síðustu viku að setja rann­sókn á embættis­verk­um Trump í form­legt ferli. Málið snýst einkum um sím­tal for­set­ans við for­seta Úkraínu og rannsakar þingnefndin hvort Trump hafi nýtt sér stöðu sína sem Banda­ríkja­for­seti og haft óeðli­leg áhrif á er­lend stjórn­völd í því skyni að skaða póli­tísk­an and­stæðing sinn.

Þrír starfsmenn utanríkisráðuneytisins munu koma fyrir nefndina í næstu viku, en vitnaleiðslur hafa hingað til farið fram fyrir luktum dyrum. Á þriðja tug manns hefur nú þegar komið fyrir nefndina. 

Adam Schiff, aðal­full­trúi demó­krata í þing­nefnd um mál­efni leyniþjón­ust­unn­ar, sagði í samtali við fjölmiða í dag að nefndin sé komin vel á veg með að safna gögnum sem ýta undir embættisglöp forsetans. 

Trump sakaður um að hafa sett það skil­yrði fyr­ir hernaðaraðstoð við landið að þarlend stjórn­völd rann­sökuðu Joe Biden, fyrr­ver­andi vara­for­seta Banda­ríkj­anna og fram­bjóðanda í for­vali Demó­krata­flokks­ins vegna for­seta­kosn­ing­anna á næsta ári, og son hans Hun­ter Biden vegna setu þess síðar­nefnda í stjórn úkraínsks orku­fyr­ir­tæk­is.

Vitnaleiðslunum í næstu viku verður streymt beint og mun bæði demókrötum og repúblíkönum í þingnefndinni gefast kostur á spyrja spurninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert