Bloomberg sagður undirbúa framboð

Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri New York-borgar, er sagður vera að …
Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri New York-borgar, er sagður vera að undirbúa þátttöku í forkosningu Demókrataflokksins vegna bandarísku forsetakosninganna á næsta ári. AFP

Fyrrverandi borgarstjóri New York-borgar í Bandaríkjunum, Michael Bloomberg, stefnir að því að gefa kost á sér í forkosningum Demókrataflokksins vegna forsetakosninganna í landinu á næsta ári. Þetta kemur fram í frétt AFP-fréttaveitunnar.

Þar segir að búist sé við því að Bloomberg, sem er 77 ára gamall, muni formlega gefa kost á sér síðar í vikunni samkvæmt fréttum fjölmiðla vestanhafs. Rifjað er upp í fréttinni að Bloomberg hafi lýst því yfir í mars að hann ætlaði ekki í framboð.

Hins vegar hafi auðkýfingurinn velt fyrir sér mögulegu framboði undanfarnar vikur. Haft er eftir ráðgjafa Bloombergs að hann hefði ekki enn gert endanlega upp hug sinn. Hins vegar segir í fréttinni að undirbúningur fyrir framboð sé þegar hafinn.

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Bloomberg, sem er einn auðugasti maður Bandaríkjanna, var borgarstjóri New York-borgar frá 2001—2013. Hann hefur ýmist verið í Repúblikanaflokknum, Demókrataflokknum eða sjálfstæður frambjóðandi. Hann er sagður miðjumaður sem telji frambjóðendur eins og Elizabeth Warren og Bernie Sanders of vinstrisinnaða.

Haft er eftir heimildamanni í frétt dagblaðsins New York Post að Bloomberg telji Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, of veikan frambjóðanda og að hvorki Warren né Sanders geti sigrað Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Sautján frambjóðendur etja þegar kappi í forkosningu Demókrataflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert