Patricia Arce, bæjarstjóri í smábæ nokkrum í Bólivíu, varð fyrir árás stjórnarandstæðinga sem drógu hana berfætta eftir götum bæjarins, helltu yfir hana rauðri málningu og klipptu af henni hárið.
Arce, sem fer fyrir stjórnarflokknum Mas, var svo afhent lögregluyfirvöldum í bænum Vinto nokkrum tímum síðar.
Segir BBC þetta vera síðasta atvikið í röð átaka sem komið hefur til milli stuðningsmanna og andstæðinga stjórnvalda í kjölfar umdeildra forsetakosninga í landinu.
Þrír hafa farist í slíkum átökum til þessa.
Að sögn BBC hafði hópur stjórnarandstæðinga lokað á umferð um brú í Vinto, sem er smábær í Cochabamba-héraðinu, sem hluta af mótmælaaðgerðum sínum vegna forsetakosninganna sem fram fóru 20. október sl.
Orðrómur komst svo á kreik um að tveir stjórnarandstæðingar hefðu verið myrtir í átökum við stuðningsmenn forsetans Evo Morales í nágrenninu og varð það til þess að hópur reiðra stjórnarandstæðinga hélt að ráðhúsi bæjarins.
Þar sökuðu mótmælendurnir Arce um að hafa kallað til stuðningsmenn forsetans til að rjúfa lokun brúarinnar og sökuðu hana jafnframt um að eiga sök á dauðsföllunum, en staðfest var síðar að einn hefði látist.
Grímuklæddir menn drógu Arce því næst berfætta eftir götum bæjarins í átt að brúnni undir hrópum um að hún væri morðingi. Þar var hún neydd til að krjúpa á hnjánum á meðan hár hennar var klippt og rauðri málningu hellt yfir hana. Var hún einnig neydd til að skrifa afsagnarbréf.
Arce var þó að lokum afhent lögreglu sem fór með hana á heilsugæslustöð til aðhlynningar, en kveikt var í skrifstofu hennar og gluggar brotnir í ráðhúsinu.
Mikil spenna hefur ríkt í Bólivíu frá því frestað var að greina frá úrslitum forsetakosninganna um sólarhring án nokkurra skýringa.
Hefur þetta vakið mikla tortryggni hjá stuðningsmönnum frambjóðanda stjórnarandstöðunnar, Carlos Mesa. Telja þeir úrslit kosninganna hafa verið fölsuð til að gera Morales kleift að sitja áfram í embætti næstu fimm árin, en Morales fékk rétt rúmlega það 10% forskot sem hann þurfti til afgerandi sigurs í fyrstu umferð kosninganna.
Kosningaeftirlitsmenn Samtaka Ameríkuríkja (OAS) hafa lýst yfir áhyggjum af þessu og er rannsókn á kosningunum nú í vinnslu.