Bandaríska flugfélagið Southwest Airlines hefur enn á ný breytt áætlunum sínum um það hvenær búast megi við Boeing 737 MAX-vélum félagsins aftur í notkun. Uppfærð áætlun gerir ráð fyrir því að vélarnar verði komnar í notkun í byrjun marsmánaðar.
Fyrri áætlun gerði ráð fyrir því að vélarnar yrðu komnar í notkun hjá félaginu í byrjun febrúar. Flugfélagið segir að þessar ráðstafanir séu gerðar til að koma í veg fyrir að óþægindi og truflanir verði á flugáætluninni, fari svo að Boeing-vélarnar verði ekki metnar flughæfar á tilsettum tíma.
MAX-vélarnar hafa nú verið kyrrsettar frá því um miðjan mars. Boeing segist búast við því að samþykki yfirvalda fáist til þess að fljúga vélunum fyrir lok árs, en ljóst er að flugfélög taka því ekki sem gefnu.
Southwest segist þó, í tilkynningu, hafa fulla trú á því að MAX-vélarnar verði öruggar er Boeing verður búið að uppfæra stýrikerfi þeirra.