Metfjöldi gróðurelda

Óvenjumikið er nú um gróðurelda í New South Wales (NSW) í Ástralíu, en eldar loga þar nú á yfir 90 stöðum. Segja yfirvöld í fylkinu sambærilega stöðu aldrei hafa komið upp áður í manna minnum.

„Við erum á áður óþekktu svæði,“ hefur BBC eftir slökkviliðsstjóranum Shane Fitzsimmons og sagði hæsta viðvörunarstig ríkja vegna 15 eldanna. „Við höfum aldrei séð svo marga elda loga á sama tíma sem kalla á viðvörunarstig.“

Eldarnir loga á mörgum stöðum þar sem þurrkar hafa verið og kynda nú sterkir vindar og hár lofthiti undir logunum.

Hafa viðvaranir einnig verið gefnar út í Queensland- og Western Australia-fylkjunum vegna gróðurelda. Ástandið hefur þó hvergi verið verra en í NSW þar sem slökkvilið hefur barist við hundruð gróðurelda frá því í september. Tveir létust í fylkinu í síðasta mánuði er þeir reyndu að vernda heimili sín fyrir eldunum.

Í síðustu viku brann 2.000 hektara svæði þar sem m.a. var griðland kóalabjarna og er óttast að hundruð þeirra hafi drepist í eldunum.

Þurrkaástand hefur nú ríkt lengi í NSW og óttast yfirvöld að eldar muni halda áfram að kvikna nema það rigni. „Við getum ekki lagt nógu mikla áherslu á þau áhrif sem þurrkarnir eru að hafa á hegðan eldanna,“ segir Fitzsimmons, en vitað er til þess að eldglóð ferðist allt að 12 km leið með vindinum og nái að kveikja þar nýja elda.

Þykkt reykjarteppi lá yfir borginni Sydney í síðustu viku vegna gróðurelda sem þá loguðu í Port Macquarie sem er í um 380 km fjarlægð.

Hafa yfirvöld sagt ofsa eldanna nú ekki síst vera áhyggjuefni í ljósi þess að heitustu mánuðir ársins eru ekki enn hafnir, en vísindamenn hafa varað við því að loftslagsbreytingar valdi auknum ofsa og lengri tíma gróðurelda í Ástralíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka