Farinn til Mexíkó

Fyrrverandi forseti Bólivíu, Evo Morales, lagði af stað í dag til Mexíkó þar sem honum hefur verið boðið pólitískt hæli. Hann sagði af sér embætti á sunnudagskvöld en mótmæli hafa verið tíð í landinu undanfarnar vikur. 

Her Bólivíu hefur samþykkt að aðstoða lögreglu við að ná stjórn í landinu á nýju eftir mótmælin. Öldungadeildarþingmaðurinn Jeanine Anez verður starfandi forseti fram yfir kosningar en þær verða væntanlega haldnar fljótlega. Tugir embættismanna og ráðherra hafa sagt af sér í kjölfar afsagnar Morales og hafa einhverjir þeirra leitað skjóls í sendiráðum erlendra ríkja í Bólivíu. 

Morales yfirgaf landið í herþotu sem mexíkósk yfirvöld sendu eftir honum eftir að hafa veitt honum pólitískt hæli til að tryggja öryggi hans. Utanríkisráðherra Mexíkó, Marcelo Ebrard, hefur staðfest við fjölmiðla að Morales sé um borð í þotunni. 

Í færslu á Twitter segir Morales að honum þyki sárt að yfirgefa land sitt vegna pólitískra ástæðna en hann muni áfram fylgjast með þróun mála í Bólivíu. „Ég sný fljótlega aftur með meiri styrk og orku,“ skrifar hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert