Greta Thunberg er komin með far yfir Atlantshafið og er bjartsýn á að ná loftslagsráðstefnunni COP25 í Madríd á Spáni, sem fram fer í byrjun desember.
„Mér hefur boðist far frá Virginíu í Bandaríkjunum á hinum 48 feta tvíbolungi La Vagabonde,“ skrifar Thunberg á Facebook. Hún verður samferða tveimur Áströlum og einum Englendingi yfir Atlantshafið. Stefnt er að brottför í fyrramálið.
Eins og aðdáendur Gretu vita þá notast hún ekki við flugsamgöngur af umhverfisástæðum. Hún sigldi frá meginlandi Evrópu og yfir til Ameríku í ágúst, m.a. til að taka þátt í loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
Til stóð að halda COP25-ráðstefnuna í Santíago, höfuðborg Síle, en vegna óeirða tilkynnti forseti landsins að ekki yrði unnt að halda ráðstefnuna í borginni. Spánverjar buðust fljótlega til þess að hýsa ráðstefnuna í Madríd, en það skapaði ákveðin vandræði fyrir Gretu, sem er jú stödd vitlausu megin Atlantshafsins.
Allt virðist þetta þó ætla að blessast hjá sænska aðgerðasinnanum, en sigling hennar frá Evrópu yfir til Bandaríkjanna tók tæplega tvær vikur.