Katarski fjölmiðillinn Al Jazeera mun birta rannsókn sína sem tengist málefnum Samherja í Namibíu 1. desember, en þetta kemur fram í frétt á vef Al Jazeera sem birtist í gærkvöldi.
Fjölmiðillinn hefur unnið að rannsókninni í samstarfi við Wikileaks, RÚV og Stundina, sem hafa þegar birt skjöl og ítarlegar umfjallanir um málið.
Í frétt Al Jazeera er aðallega fjallað um þau tíðindi gærdagsins að tveir ráðherrar í namibísku ríkisstjórninni hafi sagt af sér vegna uppljóstrana í málinu, þeir Bernhard Esau og Sacky Shanghala.
Þá er sjávarútvegsfyrirtækið Samherji kynnt til leiks fyrir lesendum miðilsins og sérstaklega er tekið fram að þetta stærsta útgerðarfélag Íslands selji fisk til verslanakeðja á borð við Marks & Spencer, Carrefour, Tesco og Sainsbury‘s.