Flóttamaðurinn loksins laus

Behrouz Boochani er Kúrdi sem er á flótta frá heimalandinu, …
Behrouz Boochani er Kúrdi sem er á flótta frá heimalandinu, Íran. Undanfarin sex ár hefur hann verið í haldi í búðum Ástrala á eyjunni Manus. Wikipedia/File:Behrouz Boochani by Hoda Afshar.jpg

Íranskur flóttamaður sem sótti um alþjóðlega vernd í Ástralíu og hefur verið haldið í flóttamannabúðum í meira en sex ár á eyjunni Manus er loksins laus. Hann fagnaði í dag frelsi á Nýja-Sjálandi.

Behrouz Boochani var sendur á Manus, sem er hluti af Papúa Nýju-Gíneu, eftir að hafa flúið heimalandið 2013. Honum ásamt fjölmörgum öðrum flóttamönnum var komið til bjargar er þeir reyndu að komast sjóleiðina frá Indónesíu til Ástralíu.

Fjölmargir hafa látið lífið vegna bágra aðstæðna á Náru- og …
Fjölmargir hafa látið lífið vegna bágra aðstæðna á Náru- og Manus-eyju. AFP

Boochani, sem er 36 ára gamall Kúrdi, rithöfundur og blaðamaður, hlaut Victorian-bókmenntaverðlaunin fyrir bók sem hann skrifaði um líf sitt í búðunum og harða stefnu Ástrala í móttöku flóttafólks.

„Ég var að koma til Nýja-Sjálands. Svo spenntur að verða frjáls eftir meira en sex ár,“ skrifar hann á Twitter í dag. „Takk allir vinir mínir sem hafa gert þetta að veruleika.“

Áströlsk stjórnvöld hafa í mörg ár sent hælisleitendur í afskekktar flóttamannabúðir á eyjunum Nauru og Manus til að koma í veg fyrir að þeir komist til Ástralíu. Enginn þeirra á möguleika á að fá hæli í Ástralíu. 

Sameinuðu þjóðirnar og mannúðarsamtök, heilbrigðisstarfsmenn og fleiri hafa gagnrýnt stjórnvöld í Canberra harðlega fyrir meðferð þeirra á flóttafólki í búðunum en ítrekað hafa birst fregnir af ofbeldisverkum, sjálfsskaða og hroðalegum aðstæðum fólks þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka