Belgísk yfirvöld greindu frá því í dag að 18 ára Belgi hafi látist af völdum andnauðar og hafa heilbrigðisyfirvöld í landinu rakið andlátið til rafrettunotkunar og skaðlegra efna í blöndunni sem maðurinn veipaði.
AFP-fréttaveitan segir málið minna á sambærileg dauðsföll sem orðið hafa í Bandaríkjunum þar sem skuldinni hefur verið skellt á E-vítamínsýru sem notuð er til að þykkja olíur sem notaðar eru í veipvökva.
„Það er búið að staðfesta tengslin við rafrettur. Það er engin önnur skýring á svo alvarlegu lungnabólgutilfelli eins og hjá þessum sjúklingi,“ sagði Maggie De Block heilbrigðisráðherra Belgíu er hún var fyrir svörum í belgíska þinginu.
Var ráðherrann spurður um máli í kjölfar frétta nokkurra fjölmiðla um lát Raphaels, Brusselbúa sem hafði veipað rafrettur með kannabisvökva.
Benda fyrstu niðurstöður til þess að um hafi verið að ræða svo nefnda CBD, eða kannabisolíu, sem er lögleg og nýtur vinsælda fyrir sefandi eiginleika sína. CBD olía sem hefur verð blönduð með ólöglegum og hættulegum efnum er þó einnig seld á svarta markaðnum.
„Það verður að halda rannsókninni áfram til að komast að því nákvæmlega hvað olli dauða Raphaels,“ sagði De Block og ítrekaði stranga reglugerð landsins varðandi rafrettunotkun.
Í skýrslu sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) sendi frá sér í júlí var úrskurðað að rafrettur hefðu „óneitanlega skaðleg“ áhrif og að ekki væri hægt að mæla með þeim sem hjálpartæki til að hætta reykingum.
Hafa heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum skilgreint rafrettunotkun sem „hættulega“ ungu fólki, en fjöldi bandarískra framhaldsskólanema sem veipuðu tæplega tvöfaldaðist á milli áranna 2017-2018.
Greindu yfirvöld þar í landi frá því á föstudag að þau hefðu borið kennsl á E-vítamínsýruna sem líklegan sökudólg varðandi faraldur lungnaskemmda sem kostað hefur 39 manns lífið og valdið veikindum hjá rúmlega 2.000 til viðbótar.
E-vítamín er að finna í mörgum matvælum, fæðubótarefnum og snyrtivörum, en hefur áhrif á lungnastarfsemi þegar því er andað að sér.