Ríkisháskólinn í Sankti-Pétursborg í Rússlandi tilkynnti í dag að hann ætlaði að opna rannsóknamiðstöð um heimilisofbeldi, en skólinn hefur verið gagnrýndur undanfarna daga eftir að sagnfræðiprófessor þar játaði að hafa myrt kærustu sína og brytjað lík hennar niður.
Fyrrverandi nemendur hafa stigið fram og sagt að Oleg Sokolov, prófessor og morðingi, hafi hagað sér með óviðeigandi hætti og að skólinn hafi hunsað kvartanir sem bárust vegna framferðis hans.
Sokolov er 63 ára, en fórnarlambið, Anastasia Yeshchenko, var 24 ára og hafði hún áður verið nemandi Sokolov og starfaði með honum við háskólann við fræðastörf.
Háskólinn hefur neitað ásökunum á hendur Sokolov — ekki um morðið þó — og í dag var tilkynnt um opnun nýrrar rannsóknarmiðstöðvar um heimilisofbeldi, sem háskólinn sagði „eitt af mikilvægustu samfélagsmeinum nútímans“.
Í Twitter-færslunni hér að neðan er mynd af fórnarlambinu, Anastasiu Yeshchenko. Fréttin heldur svo áfram.
Heimilisofbeldi er útbreiddur vandi í Rússlandi og hafa stjórnvöld ekki brugðist við ákalli þrýstihópa um úrbætur á löggjöf sem varðar ofbeldi í nánum samböndum. Lögregla lætur svo heimilisofbeldi oftast óátalið, jafnvel í alvarlegum málum.
Sem áður segir tilkynnir háskólinn um nýju rannsóknarmiðstöðina eftir gagnrýni frá almenningi og fyrrverandi nemendum, en nærri 80.000 manns hafa ritað nafn sitt við undirskriftalista þar sem þess er krafist að stjórnendur innan háskólans verði látnir víkja vegna morðsins, þar á meðal yfirmaður sagnfræðideildarinnar, þar sem Sokolov starfaði.
Einn fyrrverandi nemandi við sagnfræðideildina, Júlía Balakonóva, hefur lýst því að kynferðisleg sambönd á milli nemenda og starfsliðs hafi verið algeng við deildina, þar sem „kerfið“ snerist um að „sofa hjá kennurunum og nema einungis þau fræði sem þeir sérhæfðu sig í.“ Hún telur að Sokolov hefði átt að hafa verið látinn víkja fyrir löngu.