Er enn eitt hneykslismálið vegna norrænna banka í uppsiglingu? spyr danska ríkisútvarpið DR í umfjöllun sinni um aðkomu DNB, stærsta banka Noregs að Samherjamálinu.
Framganga Samherja í Namibíu, eftir umfjöllun Kveiks í Ríkissjónvarpinu, hefur vakið athygli erlendra fréttamiðla sem fjalla um málið. Í frétt New York Times er greint frá því að norski ríkisbankinn, DNB, hyggist rannsaka bankaviðskipti Samherja eftir að upplýsingarnar komu fram í þættinum.
DR er meðal þeirra miðla sem fjalla um Samherjamálið á vef sínum og er þar DNB sagður kunna að hafa verið með „beinum hætti“ þátttakandi í mútugreiðslum til afrískra embættismanna.
Nefnir DR, það sem þegar hefur komið fram í umfjöllun Stundarinnar, að í maí 2018 hafi DNB lokað bankreikningum sem tilheyrðu skúffufyrirtæki á Marshall-eyjunum eftir að bandarískur banki hafnaði færslunum. Þetta hafi bankinn gert af því að hættan á sektum frá bandarískum yfirvöldum vegna skúffufyrirtækisins væri of mikil.
„Bandarískur banki bregst við, en ekki DNB. Hvað segir það um eftirlitskerfið í DNB? Er kerfi DNB jafn gott og bandaríska regluverkið eða eins og kröfur Evrópusambandsins um peningaþvætti segja til um?“ spyr Tina Søreide hagfræðiprófessor við Norges Handelshøjskole í samtali við DN.no.
Thomas Midteide, aðstoðarforstjóri DNB segir bankann ekki tjá sig um slíkar vangaveltur. „Okkar hlutverk er að greina efnahagsbrotadeild frá grunsamlegum greiðslum og við greinum frá þúsundum slíkum árlega, en við getum ekki sagt hvað sendum lögreglu.“
Aftenposten hafði eftir Even Westerveld, talsmanni bankans, fyrr í dag að þáttur DNB í bankaviðskiptum Samherja í Namibíu verði væntanlega rannsakaður af norskum yfirvöldum.
Alþjóðlegi fiskimiðillinn Undercurrent fylgist greinilega náið með gangi mála því í frétt í dag er sagt frá því að „Baldvinsson“ hafi stigið til hliðar sem forstjóri Samherja í kjölfar rannsóknar á meintum brotum fyrirtækisins, en átt er við Þorstein Má. Tímabundið í hans stað hefur Björgólfur Jóhannsson tekið við stjórntaumunum.
Breski viðskiptamiðillinn CNBC fjallar einnig um málið. Í fréttinni er sagt frá uppsögnum tveggja namibískra ráðherra eftir upplýsingarnar sem komu fram í skjölum Wikileaks. Farið er yfir málið og vísað meðal annars til umfjöllunar Stundarinnar um málið. Sömu sögu er að segja í frétt Euronews.
Í þættinum var sjávarútvegsfyrirtækið Samherji m.a. sagt hafa greitt hundruð milljóna í mútur til einstaklinga tengdum sjávarútvegsráðherra Namibíu til að tryggja aðgang að veiðikvóta þar í landi.
Greint hefur verið frá því á mbl.is að norskir miðlar hafa fjallað talsvert um málið. Samherji tengist hvoru tveggja norska ríkisbankanum og á 40% hlut í togaraútgerðinni Nergårds.