Nýjar upplýsingar um símtöl milli háttsettra rússneskra embættismanna og manna sem eru ákærðir fyrir að hafa skotið niður farþegaþotu yfir Úkraínu árið 2014 voru birtar í dag. Um er að ræða upplýsingar sem komu fram í hollenskri rannsókn á árásinni en allir um borð í flugi MH17, 298 manns, fórust.
Um er að ræða símtöl milli leiðtoga aðskilnaðarhópsins DPR og háttsettra embættismanna. Að sögn Andy Kraag, yfirmanns rannsóknardeildar hollensku lögreglunnar, sýnir þetta að tengslin milli rússneskra yfirvalda og DPR eru nánari en áður var talið.
Í júní var greint frá því að fjórir yrðu ákærðir fyrir að hafa skotið niður farþegaþotu Malaysia Airlines þegar Boeing þotan var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur. Réttarhöldin eiga að hefjast í mars 2020. Allar líkur eru á að þeir verði ekki viðstaddir réttarhöldin.