Ítalska ríkisstjórnin lýsti í dag yfir neyðarástandi vegna flóða í Feneyjum og hefur jafnframt óskað eftir fjármagni úr opinberum sjóðum til að ná tökum á ástandinu. Á ríkisstjórnarfundi í gær var samþykkt að veita ríflega 20 milljónum evra til aðstoðar á svæðinu.
Gríðarleg flóð hafa verið í Feneyjum undanfarna daga og hefur sjór streymt inn á vinsæla ferðamannastaði í borginni, þar á meðal Markúsartorg. Nú þriðjudag var jafnframt greint frá því að ekki hafi verið eins hásjávað í borginni í meira en 50 ár.
Forsætisráðherra Ítalíu, Giuseppe Conte, lýsti ástandinu sem „gríðarlegu höggi á hjarta landsins“, en hann ferðaðist til borgarinnar á miðvikudag. Fjárhagslegt tjón vegna flóðanna er ekki komið í ljós en talið er að það hlaupi á hundruðum milljóna evra.