Roger Stone, fyrrverandi stjórnmálaráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta, var í dag fundinn sekur um að hindra framgang réttvísinnar og um að falskar yfirlýsingar varðandi vitnisburð hans fyrir Bandaríkjaþingi vegna tölvupósta Demókrataflokksins sem stolið var árið 2016.
Var Stone fundinn sekur um að leggja stein í götu þingrannsóknar á afskiptum rússneskra ráðamanna af bandarísku forsetakosningunum 2016. Bættist Stone þar með í sístækkandi hóp einstaklinga sem áður voru í innsta hring forsetans og sem nú hafa hlotið dóm fyrir alríkisdómstólum.
Fréttir af úrskurðinum bárust á sama tíma og vitnaleiðslur fara fram hjá fulltrúadeild þingsins vegna rannsóknar á embættisverkum Trump.
Kviðdómur taldi Stone sekan í öllum sjö ákæruliðum, m.a. um að hafa logið að þingmönnum um WikiLeaks, að hann hefði haft áhrif á vitni og hindrað rannsókn njósnanefndar þingsins á því hvort að starfsfólk kosningabaráttu Trump hefðiátt í samstarfi við Rússa vegna forsetakosninganna.
Trump var ekki seinn til að tjá sig um dómsúrskurðinn á Twitter og spurði þar hvort að dómurinn „byggðist ekki á meiri tvískinnungi en hefði nokkurn tímann áður sést í sögu“ Bandaríkjanna.
So they now convict Roger Stone of lying and want to jail him for many years to come. Well, what about Crooked Hillary, Comey, Strzok, Page, McCabe, Brennan, Clapper, Shifty Schiff, Ohr & Nellie, Steele & all of the others, including even Mueller himself? Didn’t they lie?....
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 15, 2019
„Núna úrskurða þeir Roger Stone sekan um lygar og vilja fangelsa hann um árabil. Hvað um svikulu Hillary, Comey, Strzok, Page, McCabe, Brennan, Clapper, Shifty Schiff, Ohr & Nellie, Steele og alla hina, þar á meðal Mueller sjálfan. Lugu þau ekki,“ sagði Trump og nefndi þarna á nafn pólitíska andstæðinga sem hann beinir reglulega sjónum sínum að.
Stone, sem hefur neitað ásökununum, fær að ganga laus fram að dómsuppkvaðningu í febrúar á næsta ári.