Zika greinist í Evrópu

Zika-veiran getur smitast við moskítóbit. Þriðja tilfellið af veirunni sem …
Zika-veiran getur smitast við moskítóbit. Þriðja tilfellið af veirunni sem vitað er til þess að fundist hafi í Evrópu greindist í Frakklandi í lok síðasta mánaðar. AFP

Þriðja tilfellið af Zika-veirunni sem vitað er til þess að fundist hafi í Evrópu greindist í Frakklandi í lok síðasta mánaðar. Öll þeirra smituðu búa í sama bænum í Suður-Frakklandi,  ekkert þeirra hefur ferðast til landa þar sem veiran hefur breiðst út og ekki er talin hætta á faraldri í Evrópu, þar sem veðurfar fer nú kólnandi sem heftir líkur á útbreiðslu.

Þetta kemur fram á vefsíðu ECDC, Sóttvarnastofnunar Evrópu.

Zika-veir­an er svo­kölluð Flavi-veira og berst með þeirri tegund moskítóflug­na sem lifa á hitabeltissvæðum og svæðum þar sem loftslag er temprað. Veiran getur smitast frá móður til barns í móðurkviði, en einnig með kynmökum, blóðgjöf og líffæraflutningum, að því er fram kemur á vefsíðu WHO, Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar.

Á vefsíðu EDCD segir að frönsk heilbrigðisyfirvöld hafi aukið skimun í þeim tilgangi að finna fleiri hugsanleg tilvik. Þá hafa verið gefnar út viðvaranir á svæðinu og er þeim einkum beint að barnshafandi konum, en Zika-veiran getur m.a. valdið fæðingargalla hjá börnum sýktra mæðra sem lýsa sér einkum í óvenju smáu höfði og heilaskemmdum. Þá bentu rannsóknir til þess að veiran réðist á heilafrumur og ylli sjúkdómi sem líktist MS.

Sýkingar af völdum veirunnar geisuðu í löndum Suður- og Mið-Ameríku fyrir um þremur árum og var þá m.a. rætt um að réttast væri að aflýsa Ólympíuleikunum sem haldnir voru í Rio de Janeiro í Brasilíu þá um sumarið. Neyðarástandi var lýst yfir af WHO, Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni, snemma árs 2016 vegna veirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert