Miriam Gamarra, 39 ára bankastarfsmaður, man eftir að hafa fundið fyrir verk í brjósti þegar hún heyrði skothvelli í fjarska er hún var á leið í vinnu. „Drottinn gættu sonar míns,“ muldraði hún með sjálfri sér. Gamarra var þó ekki bænheyrð og sonur hennar Luis Ariza var myrtur þetta maíkvöld af venesúelsku sérsveitinni sem hefur vakið ótta í fátækrahverfum höfuðborgarinnar Caracas. Hann var 21 árs gamall.
Gamarra er ekki ein um sorgir sínar, en Ariza er einn hundruð íbúa fátækrahverfanna sem hafa fallið fyrir hendi sérsveitanna (FAES)og segja ástvinir fórnarlambanna og mannréttindasamtök um „aftökur“ að ræða.
Þessar ásakanir hafa ratað alla leið á borð Michelle Bachelet, mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna og fyrrverandi forseta Chile.
Bachelet fundaði með ættingjum fórnarlambanna í júní í sumar og hvatti að honum loknum til þess að sérsveitin, sem forsetinn Nicolas Maduro setti á fót árið 2017 til að berjast gegn glæpum, yrði leyst upp.
Mannréttindasamtökin Cofavic hafa frá því í fyrra skráð hjá sér upplýsingar um 831 „aftökur“ af hendi sérsveitarmanna.
Það var í maí á þessu ári sem FAES fór inn í húsið sem Ariza bjó í með eiginkonu sinni og tveimur börnum. Konu hans og börnum var haldið inni í húsinu á meðan að sérsveitarmenn tóku Ariza á brott með sér. Ættingjar hans segja hann hafa verið óvopnaðan. Eiginkona hans segir að þegar hún komst loksins út úr húsinu þá hafi hún fundið hann látinn á götunni.
Frásögn FAES af atburðinum hljómar hins vegar allt öðruvísi. Í vinnuskýrslu sérsveitarinnar sem AFP hefur undir höndum eru sérsveitarmenn sagðir hafa mætt ungum vopnuðum manni úti á götu. Hann hafi neitað að verða við beiðni lögreglunnar að stöðva heldur hafi hann skotið af byssu í átt að lögreglustöðinni. Það hafi leitt til skotbardaga við sérsveitarmenn og þess að Ariza hlaut banvæn sár.
Er hann í skýrslunni ennfremur sagður hafa verið grunaður um aðild að morðmáli. Þar kemur þó einnig fram að ekki hafi verið gefin út handtökuskipan á hendur honum, né heldur hafi vopn hans verið flaggað með neinum hætti.
Tveimur árum áður hafði Ariza dvalið þrjá mánuði í varðhaldi vegna mótmæla gegn Maduro. Það var um það bil á sama tíma og Maduro stofnaði FAES. Voru sérsveitirnar stofnaðar til að verja „almenning gegn glæpum og hryðjuverkahópum“ sem Maduro sagði tengjast stjórnarandstöðunni.
Ekki leið þó á löngu þar til kvartanir og ásakanir í garð sérsveitanna tóku að streyma inn.
Segja Bachelet, óháð samtök og ættingjar fórnarlambanna sérsveitirnar starfa utan dóms og laga aðallega í fátækari hverfum borga.
Eru sérsveitarmenn sakaðir um að skjóta unga menn á dauðafæri, að skálda upp skotbardaga, fela krufningaskýrslur og hindra ættingja fórnarlamba í að sjá opinber gögn.
Í skýrslu sem birt var í júlí á þessu ári kvaðst Bachelet gruna að yfirvöld í Venesúela notuðu FAES og aðrar öryggissveitir til að vekja ótta hjá íbúum og viðhalda þannig stjórn sinni.
Christian Charris, einkasonur Carmen Arroyo, var myrtur í september í fyrra.
„Stjórnvöld vita að þau eru ekki vinsæl í fátækari hverfunum og þess vegna senda þau þessa leigumorðingja þangað inn til að tryggja að enginn rísi upp til að mótmæla broti á réttindum okkar,“ segir hún.
Maduro hefur sakað Bachelet um lygar í skýrslu sinni og hefur hvatt Venesúelabúa til að styðja FAES.
Samkvæmt opinberum upplýsingum létust alls 17.849 manns í atvikum þar sem kom til „andspyrnu gegn yfirvöldum“. Að mati Bachelet má rekja þessi dauðsföll til öryggissveita og telur hún í mörgum tilfellum um að ræða aftökur án dóms og laga.
Ímynd FAES er ætlað að vekja ótta hjá íbúum, en liðsmenn sveitanna klæðast svörtum göllum, með hauskúpu saumaða út í ermarnar og dylja oft andlit sín.
Ekkert er vitað um það hvar sérsveitarmennirnir eru ráðnir til starfa, né heldur hversu margir þeir eru.
AFP hefur eftir vitnum að þeir eigi það til að stilla upp líkum fórnarlamba sinna „sem fordæmum“
Bandarísk yfirvöld hafa skaða yfirmann deildarinnar Rafael Bastardo um mannréttindabrot og hafa gert honum að sæta refsiaðgerðum.
Í kirkjugarðinum í Caracas syrgir Ruth Perez 21 árs gamlan frænda sinn Joander sem hún segir FAES hafa myrt nokkrum dögum áður. Gröf hans er við hlið mágs hennar Wuilkerman Ruiz sem vitni segja hann hafa farist í sömu aðgerðum sérsveita í einu af stærstu fátækrahverfum Caracas.
Nágrannar segjast hafa séð Johander krjúpandi á hnjánum með bundið fyrir augu. Þeim var því næst gert að snúa heim. Þeir heyrðu svo byssuskot og fjölskylda Johanders fann lík hans á götunni.
Ættingjar hans segja FAES hafa ásakað Johander um þjófnað. Perez hafði áður en þetta gerðist misst Jesse bróður sinn í júlí í fyrra og frænda sinn Yondris í ágúst á þessu ári. Hún segir þá báða líka hafa fallið fyrir hendi sérsveitarmanna.
Liliana Ortega, stofnandi Cofavic, segir ekki vera refsað fyrir 98% dauðsfalla sem eigna megi FAES-liðum af því að rannsóknirnar komist aldrei af frumstigi.
Að sögn saksóknara hafa 695 liðsmenn sérsveita í landinu verið ákærðir fyrir morð, pyntingar, ólöglegar handtökur og ólöglegar húsleitir frá því árið 2017. Af þeim hafa 109 verið fundnir sekir.