Bankareikningar í eigu tveggja namibískra manna sem tengjast Samherjamálinu hafa verið frystir í tengslum við rannsókn á meintri mútuþægni þeirra. Þetta kemur fram í prentútgáfu namibíska dagblaðsins The Namibian, sem kemur út á morgun, en Kjarninn greindi fyrstur frá íslenskra miðla.
Um er að ræða þá Shacky Shanghala, sem sagði í vikunni af sér sem dómsmálaráðherra landsins og Tamson Hatukulipi, sem er tengdasonur Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra landsins.
Í fréttinni segir enn fremur að þeir Shangala og Hatukulipi hafi nýverið farið til Höfðaborgar í Suður-Afríku og ekki snúið aftur til Namibíu.
Hatukulipi var í fréttaskýringaþættinum Kveik sagður hafa kynnt lykilstjórnendur Samherja fyrir Esau. Hann, Esau, Shangala og James Hatukulipi hafi síðan myndað kjarnann í hópi þeirra valdamanna sem tóku við mútugreiðslum frá Samherja fyrir ódýrt aðgengi að hrossamakrílskvóta.