Fékk sér pizzu með Beatrice

Andrew prins var í löngu viðtali á BBC í gærkvöldi.
Andrew prins var í löngu viðtali á BBC í gærkvöldi. AFP

Andrew Bretaprins neit­ar því staðfast­lega að hafa haft kyn­mök við ung­lings­stúlku sem seg­ist hafa verið neydd til þess að sofa hjá prins­in­um af banda­ríska barn­aníðingn­um Jef­frey Ep­stein.

Prins­inn var gest­ur Newsnig­ht-þátt­ar­ins á BBC í gær­kvöldi og sagði Andrew í þætt­in­um, sem var klukku­tími að lengd, að sig reki ekki minni til að hafa nokk­urn tíma hitt Virg­inu Roberts.

Virg­inia Giuf­fre, sem áður hét Virg­inia Roberts, bar vitni um það í ákæru gegn Ep­stein og vin­konu hans árið 2016 að hún hafi haft kyn­mök við Andrew þegar hún var á barns­aldri en vitn­is­b­urðinum hef­ur verið ákaft neitað af prins­in­um og kon­ungs­fjöl­skyld­unni. 

Andrew seg­ist hafa brugðist kon­ungs­fjöl­skyld­unni með sam­band­inu við Ep­stein eft­ir að hann var dæmd­ur fyr­ir vændis­kaup. Hann seg­ist aft­ur á móti telja að hann hafi ekki eyðilagt orðspor móður sinn­ar, Elísa­bet­ar Eng­lands­drottn­ing­ar. 

Andrew seg­ir í viðtal­inu að hann geti full­vissað Em­ily Maitl­is, þátta­stjórnd­anda BBC, um að þetta hafi aldrei gerst, spurður út í ásak­an­ir Giuf­fre um að hann hafi haft mök við hana þris­var sinn­um. 

Skjá­skot af Mail on Sunday

Hann seg­ist hafa verið heima með börn­um sín­um kvöldið í mars 2001 sem Giuf­fre seg­ir að þau hafi haft mök. Áður hafi hann farið með dótt­ur sína, Be­atrice, á pizz­astað skammt fyr­ir utan London.

„Þenn­an dag, sem okk­ur skilst að hafi verið 10. mars var ég heima. Ég var með börn­un­um og ég hafði farið með Be­atrice á Pizza Express í Wok­ing í veislu og mig minn­ir að það hafi verið um fjög­ur eða fimm síðdeg­is. Og þar sem her­togaynj­an var að heim­an, og við erum með þá reglu í fjöl­skyld­unni að þegar ein­hver annað okk­ar er ekki heima þá er hitt þar. Ég var í leyfi á þess­um tíma hjá kon­ung­lega sjó­hern­um og þess vegna var ég heima,“ sagði Andrew í viðtal­inu.

Þegar hann er spurður hvernig standi á því að hann muni þetta svo ná­kvæm­lega, að hafa farið á Pizza Express í af­mæli svaraði And­ew því til að það hafi verið afar óvenju­legt fyr­ir hann að fara á Pizza Express í Wok­ing. Hann hafi aðeins komið nokkr­um sinn­um til Wok­ing áður og þess vegna muni hann þetta svo greini­lega.

Lítið um sam­visku­bit og sam­kennd

Fátt annað er á forsíðum bresku blaðanna í dag en viðtalið og ýms­ir hafa á orði hvað lítið fari fyr­ir iðrun prins­ins.

„Ekki minnst einu orði á sam­visku­bit,“ seg­ir í fyr­ir­sögn Mail on Sunday. Svipuð fyr­ir­sögn er í Sunday Mirr­or: „No sweat... and no regret".

Guar­di­an seg­ir að prins­inn virðist ekki gera sér neina grein fyr­ir al­var­leika máls­ins. Hann hafi hlegið og brosað ít­rekað í viðtal­inu. Eng­in eft­ir­sjá né virðist hann hafa áhyggj­ur af þolend­um níðings­verka Ep­steins. 

Andrew, sem er 59 ára gam­all og átt­undi í krúnuröðinni, hef­ur verið harðlega gagn­rýnd­ur fyr­ir tengsl sín við auðkýf­ing­inn Ep­stein sem framdi sjálfs­víg í fanga­klefa í ág­úst. 

Ep­stein var í gæslu­v­arðhaldi þegar hann tók eigið líf en hann beið rétt­ar­halda þar sem hann var ákærður fyr­ir að hafa selt barn­ung­ar stúlk­ur í vændi. Ep­stein játaði árið 2008 að hafa selt stúlku, sem var á barns­aldri, í vændi og sat 13 mánuði í fang­elsi áður en hann var lát­inn laus til reynslu. Þrátt fyr­ir það hélt Andrew sam­bandi við hann og bauð hon­um jafn­vel í Windsor kast­ala. 

Viðtalið var birt í gær­kvöldi en það var tekið upp í Buck­ing­ham-höll á fimmu­dag. Þetta er í fyrsta skipti sem Andrew svar­ar spurn­ing­um í viðtali um sam­band hans við Ep­stein. Árið 2015 kom hann fram op­in­ber­lega í Dav­os í Sviss og neitaði sök.

Ef­ast um ljós­mynd

Hann hef­ur ít­rekað haldið því fram að hann væri ekki ná­inn vin­ur Ep­stein en á mynd sem til er af hon­um með hand­legg­inn utan um Roberts, sem var 17 ára á þeim tíma. Á bak við þau sést í vin Ep­stein, Ghislaine Maxwell. Andrew sagði í viðtal­inu að hann efaðist um áreiðan­leika mynd­ar­inn­ar og lýsti henni sem mynd af mynd af mynd (a photograph of a photograph of a photograph).

„Ég trúi ekki að mynd­in hafi verið tek­in á þann hátt eins og ýjað er að,“ sagði hann og að hans sögn hef­ur hann aldrei komið á efri hæð íbúðar Maxwell í London þar sem mynd­in er tek­in.

Eng­inn get­ur sannað hvenær eða hvort mynd­in hafi verið tek­in við þær aðstæður. Hann reki ekki minni til þess að þessi mynd hafi verið tek­in.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka