„Tekin var ákvörðun um það munnlega að gefa sjúklingum á langlegudeildunum stöðuna HLR mínus [lífgunartilraunir ekki gerðar á ögurstundu]. Ástæðurnar eru hár aldur, almennt slæmt heilsufar og mjög oft fjöldi greindra sjúkdóma.“
Þannig hljómaði hluti skriflegs svars Evy Anne Vestli Heggen, forstöðumanns heilbrigðissviðs sveitarfélagsins Eidskog í Hedmark í Noregi, við erindi fylkismannsins í Hedmark sem ásamt fylkislækni grennslast nú fyrir um hverju það sætti að sjúklingur á langlegudeild hjúkrunarheimilisins Eidskog Helsetun var einfaldlega látinn deyja drottni sínum í janúar þegar starfsfólk deildarinnar hefði samkvæmt lögum um heilbrigðis- og umönnunarþjónustu (n. helse- og omsorgstjenesteloven) átt að neyta allra ráða til að sjúklingurinn hjarnaði við.
Upphaf málsins má rekja til þess að aðstandandi hins látna kvartaði við fylkismanninn eftir að hafa fengið að heyra viðmiðunarreglur heimilisins sem fram koma hér að ofan.
Harald Vallgårda, fylkislæknir í Innlandet, segir við staðarblaðið Kommunal Rapport, sem fyrst greindi frá málinu en rekur læsta fréttasíðu, að ákvörðun um að ekki skuli gera lífgunartilraunir sé aðeins læknir bær til þess að taka og þá í tilfelli hvers sjúklings fyrir sig.
„Greinargerð kvartanda og svar sveitarfélagsins afhjúpaði svo alvarlega framkvæmd að fylkismaðurinn hringdi tafarlaust í forstöðumann stofnunarinnar til þess að krefjast breytinga á verkferlum við langlegudeildina þegar í stað,“ skrifar fylkislæknir í skýrslu sem hann sendi frá sér 30. september, en Kamilla Thue, bæjarstjóri í Eidskog, kannast þó ekkert við að hafa fengið á sitt borð.
Eftir símtal fylkismannsins rumskaði yfirstjórn Eidskog Helsetun að einhverju marki og sendi fylkismanninum bréf í maí. Kom þar fram að um einn allsherjarmisskilning væri að ræða, ávallt hefði farið fram mat á því í hverju einstöku tilfelli þegar feigðin sækti að vistmönnum hvort rétt væri að gera lífgunartilraunir. Bréfinu fylgdu eyðublöð sem skyldu færa sönnur á þetta.
Ekki skánaði málstaður Helsetun-heimilisins þegar fylkismaðurinn tók að rýna í fylgigögnin og taldi sig fljótlega greina síðari tíma breytingar á þeim og tók Vallgårda fylkislæknir þær grunsemdir fram í skýrslu sinni auk þess að tíunda þá skyldu laga um heilbrigðisstarfsfólk (n. helsepersonelloven) að það tjái sig sannleikanum samkvæmt um atriði máls.
Heggen forstöðumaður vísar því alfarið á bug að átt hafi verið við gögnin eftir á og segir starfsfólki sveitarfélagsins mjög þyngt af þeim áburði.
Fylkislæknir hefur nú krafið sveitarfélagið um greinargerð um öll tilfelli síðasta árið þar sem teknar hafa verið ákvarðanir um lífgunaraðgerðir með skilafresti á miðvikudaginn, 20. nóvember. Eidskog-sveitarfélagið hefur brugðist við þessu með því að kalla til lögmann og hyggst kvarta formlega yfir ásökunum um vanrækslu þar sem málatilbúnaður allur byggist á misskilningi.